144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er að teikna sig upp sá skilningur hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að þingið þiggi umboð sitt frá ríkisstjórninni en því sé ekki öfugt farið. Það er orðið gríðarlega mikilvægt að fara að leiðrétta þetta. Þú, hæstv. ráðherra, situr í umboði þingsins. Ef þú heldur eins og þú virðist halda, hæstv. ráðherra, að við sitjum í umboði þínu (Gripið fram í: Ekki þú.) þá skaltu senda okkur bréf. Það væri gagnlegt fyrir þingheim að fá bréf frá hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni sem farið væri yfir hvernig þingsköpum skuli háttað, hvaða ræðutími skuli vera, hvað sé tilhlýðilegt að við tölum mikið um mál og hvernig við eigum almennt að haga okkur. Ef þingið þiggur umboðið frá ríkisstjórninni þá biðjum við um slíkt bréf.