144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kom til þessarar umræðu í dag með væntingar um að fá einhver svör, frá hæstv. utanríkisráðherra, um það hvaða erindi hann átti við ESB, hvaða skilaboð hann var að gefa. Ég vildi að hæstv. ráðherra skýrði þetta út sjálfur fyrir Alþingi Íslendinga.

Þar kemur í ræðunni að hæstv. ráðherra lendir í þrotum. Hvað gerir hann þá? Hann vitnar í Morgunblaðið og samtal sitt við blaðið, segir þetta við þingheim: Ég er hér í ræðustól, ég treysti mér ekki alveg til að skýra þetta. Lesið þið bara Morgunblaðið. Er eitthvað hægt að tala um það skýrar hvaðan sé stjórnað?

Maður verður dapur yfir þessu og leiður. Síðan segir hæstv. ráðherra: Þingstyrkur ræður. En sá þingstyrkur fær ekki að koma fram. Er það virkilega þannig að hann er búinn að klukka alla þingmennina í þingflokknum og segja: Þú verður, þú verður, þú verður, og að málið þurfi ekkert að koma fyrir þingið? Eru þetta skilyrðin sem við eigum að búa við hér? Nei, nei, það þarf ekkert að spyrja ykkur, þið eruð í minni hluta og þegið þið bara. Það eru skilaboðin sem ráðherra er að gefa.