144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar gildi lögfræðilegra greinargerða er það einfaldlega þannig að í greinargerðinni sem samin var fyrir forseta Alþingis segir skýrt að ef Alþingi skipti um skoðun þurfi að staðreyna það með aðkomu Alþingis. (BÁ: Eða kynna fyrir Alþingi.) Já, eða kynna fyrir Alþingi og hvorugt hefur verið gert í þessu tilviki, heldur hefur Alþingi þvert á móti skipulega verið sniðgengið um aðkomu að þessu máli. (Gripið fram í.) Það sem liggur fyrir í greinargerðinni sem samin var fyrir utanríkisráðherrann er að hún er byggð á misskilningi á orðum tiltekins manns sem ég hef hér flutt leiðréttingu á. Þess vegna held ég að menn eigi að fara varlega í að lesa of mikið í og oftúlka þessar álitsgerðir með þeim hætti sem hæstv. ráðherra og bandamenn hans gera hér í þingsal.

Að því er varðar framhaldið er það afstaða mín og skoðun að bréf utanríkisráðherra sé að engu hafandi vegna þess að það var Alþingi Íslendinga sem samþykkti 16. júlí aðildarumsókn. Á grundvelli þess bréfs er skrifað bréf sama dag af hálfu utanríkisráðherra og forsætisráðherra til Evrópusambandsins og sótt um aðild. Á grundvelli þeirrar aðildarumsóknar samþykkja ekki ríkisstjórnir aðildarríkjanna heldur þjóðþing aðildarríkjanna beiðni Íslands um aðildarviðræður. (Utanrrh.: Hvergi vísað í þingsályktun í bréfinu.) Aðildarríkin hafa þannig hvert og eitt, þjóðþing þeirra, samþykkt að lagt verði af stað í aðildarviðræður. Ég tel að þetta bréf, sérstaklega í ljósi þess að nú er leitt í ljós hvernig það er byggt á undirferli og ranghugmyndum, verði aldrei lögmætur grundvöllur fyrir Evrópusambandið til að breyta stöðu Íslands sem umsóknarríkis. Og þar af leiðandi standi íslensk ríkisstjórn sem vilji taka upp þráðinn frammi fyrir því að allt sem þegar hefur verið unnið í þessu aðildarferli sé á góðum stað. Það sé einfaldlega hægt með bréfi að senda yfirlýsingu til Evrópusambandsins um að ætlunin sé að taka upp þráðinn.

Ég held hins vegar að það séu pólitísk rök fyrir því að leita áður samþykkis (Forseti hringir.) þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir því að halda áfram.