144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra hv. þm. Birgi Ármannsson, sem er heiðarlegur maður og grandvar, afneita í ræðustól Alþingis stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sem birt var á vefsíðu hans fyrir síðustu kosningar. Er það vefstjórinn sem er höfundurinn að óförum Sjálfstæðisflokksins? Ég hélt að það væri hv. þm. Bjarni Benediktsson, því að hingað til hefur hv. þm. Birgir Ármannsson viljað hengja þann kross á formann Sjálfstæðisflokksins og segja að hann hafi misst þetta út úr sér í sjónvarpssal.

Staðreyndin er auðvitað sú að sjálfstæðismenn um landið þvert og endilangt, forustumenn í öllum kjördæmum, lofuðu því að ekki yrðu teknar grundvallarákvarðanir um að ljúka þessu ferli eða slíta því nema með aðkomu þjóðarinnar. Af því er flokkurinn að sjálfsögðu siðferðilega bundinn gagnvart kjósendum sínum.

Það sem er lykilatriði í málinu nú er að bréf utanríkisráðherrans er að engu hafandi, það er byggt á ranghugmyndum, það er byggt á vanheimild gagnvart Alþingi Íslendinga og það er ekki hægt að taka það alvarlega af stofnunum Evrópusambandsins. Þær væru þá að brjóta (Forseti hringir.) lýðræðislegar grundvallarskyldur sínar, (Forseti hringir.) að virða þingræði í aðildarríkjum.