144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason stóð aldrei að loforði um að fara með þetta mál til þjóðarinnar áður en samningur lægi fyrir. (Gripið fram í: … Steingrími.) Það gerðu hins vegar fulltrúar núverandi ríkisstjórnar, það gerðu þeir sannarlega þannig að við skulum hætta þessari dellu hér.

Ég kem hér upp vegna þess að ég get ekki enn eina ferðina setið undir því að hér hafi eitthvað annarlegt átt sér stað við atkvæðagreiðslu sumarið 2009 um það hvort sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu þegar staðreyndirnar tala sínu máli, þ.e. fulltrúar þáverandi stjórnarflokka kusu beinlínis gegn tillögunni. Það var öll kúgunin. Hins vegar var það þannig að fulltrúar þáverandi stjórnarandstöðu, fulltrúar Framsóknarflokksins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, greiddu atkvæði með henni. Þannig fór það, þannig að menn skulu hafa það allt saman á hreinu áður en þeir væna menn um að hafa ekki fylgt sannfæringu sinni við atkvæðagreiðslu. Ég óska eftir því og ítreka ósk mína um það sem áður hefur komið fram að þetta verði rannsakað fyrst menn halda þessu fram vegna þess að þá hafa menn beinlínis verið að brjóta gegn stjórnarskránni. Það gengur ekki að menn geti haldið því hér fram aftur og aftur átölulaust.

Virðulegur forseti. Ef menn skoða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar talar hún sínu máli og hrekur þennan fáránlega málflutning (Forseti hringir.) ...

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því enn til þingmanna að þeir virði ræðutíma.)