144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vildi ég segja að mér finnst eiginlega aðdáunarvert og djarft af hálfu talsmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vera að ræða um það sem sagt er fyrir kosningar, og svo gert eftir kosningar í þessu sambandi. En til þess að staldra ekki of lengi við fortíðina vildi ég spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur nokkurn veginn sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Árna Pál Árnason hér áðan: Ef mynduð yrði ríkisstjórn eftir næstu kosningar sem vildi halda áfram aðildarviðræðum, og segjum að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætti aðild að slíkri ríkisstjórn, hvernig teldi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir að slík ríkisstjórn, sem vildi halda áfram, ætti að bera sig að?