144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugavert. Gott að enn er hér staðfestur sá þverpólitíski meiri hluti sem virðist vera að myndast í þessum sal um það að verði aðildarviðræður við Evrópusambandið teknar upp að nýju þyrfti að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða væri pólitískt æskilegt að gera það. Það kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni hér áðan, og nú af hálfu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, að ekki verði farið af stað í viðræður við Evrópusambandið að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú velti ég því fyrir mér, varðandi það að taka þátt í ríkisstjórn sem stefnir að aðild að Evrópusambandinu, og breyti spurningunni: Ef hv. þingmaður ætti aðild að ríkisstjórn sem vildi halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, hvernig teldi hún að það væri best gert?