144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ansi er þetta slappt og máttlaust svar því að það vita allir sem kusu Vinstri græna á þessum tíma að þetta var stærsta kosningaloforð sem nokkur flokkur hafði farið með, fékk atkvæði þeirra sem vildu ekki ganga í Evrópusambandið og sveik það daginn eftir. Afsakið, forseti, ég er að mismæla mig. Það var búið að ákveða þetta ríkisstjórnarsamstarf fyrir kosningarnar 2009. Það hefur meðal annars komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og þar með voru kjósendur Vinstri grænna á þessum tíma blekktir.

Mig langar í framhaldinu að spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um þau orð sem koma fram í bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í þá veru að Vinstri hreyfingin — grænt framboð hafi gefið eftir ESB-trúverðugleika sinn (ÖS: Gaf einmitt ekki eftir þrátt fyrir góða tilraun til þess.) og leyft Samfylkingunni að fara fram með ESB-umsóknina gegn því að Vinstri grænir fengju öll sín virkjunarverndunaráform í gegn í ríkisstjórninni. Þetta er til á prenti, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Sumum finnst bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar ekki mjög góð heimild (Forseti hringir.) en ég vísa samt í hana vegna þess að (Forseti hringir.) hún er jú til á prenti.