144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var samþykkt að hingað inn í þingið kæmi þingsályktunartillaga á sínum tíma. (KLM: Þú studdir það.) Þar gæti hver og einn þingmaður greitt atkvæði eins og hann vildi.

Það sem mig langaði til að vita er af hverju hv. þm. Katrín Jakobsdóttir í þessari atkvæðagreiðslu, þar sem hver og einn þingmaður gat greitt atkvæði eins og hann vildi, studdi það ekki að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, og hvort það sé þá ekki dálítið holur hljómur í því að tala um að það megi síðan ekki slíta þeim sömu viðræðum án þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla.

Ég var ekki inni í hugarheimi hv. þingmanns þegar hún ýtti á hnappinn hér í þingsal árið 2009. En af hverju má ekki með sama hætti hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið án þess að spyrja þjóðina eins og gert var á sínum tíma?

Ég vil svo ítreka hina spurninguna varðandi það sem sagt var hér kvöldið fyrir kosningar. Var hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi formaður flokksins, ósammála því — (Forseti hringir.) var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki að túlka stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar hann sagði (Forseti hringir.) kvöldið fyrir kosningar, fjórum sinnum en ekki fimm sinnum eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hélt fram hér áðan, að ekki yrði sótt um aðild.