144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt það í þessum sal að líklega hefði verið skynsamlegast að þessi vegferð hefði verið borin undir þjóðina á sínum tíma, áður en lagt var af stað í hana. Og það er það sem ég hef sagt, eftir á að hyggja, að það hefði verið skynsamlegast, þannig að ég tel engan holan hljóm í því.

Ég held líka að íslenskt samfélag hafi breyst talsvert eftir hrun. Og ég held að krafa almennings í þessu landi sé orðin talsvert ríkari að hafa bein áhrif á það sem gerist í samfélaginu. Það er miklu ríkari krafa um beint lýðræði á öllum sviðum, og ég skammast mín ekkert fyrir að vilja taka þátt í þeim breytingum sem hafa orðið. Ég bara geri það, ég vil taka þátt í þeirri breytingu og ég vil auka beint lýðræði og ég vil að við notum öll þau tól og tæki sem við getum til þess að gera það.

Nei, hv. þingmaður, mér finnst ekkert sérstaklega holur hljómur í þessu, enda er talsvert lengra síðan þetta var til umræðu en síðan forsvarsmenn núverandi ríkisstjórnar — sem núverandi ríkisstjórn forðast eins og heitan eldinn að ræða — lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.