144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þrennt: Í fyrsta lagi fyrir ákaflega málefnalega ræðu, í öðru lagi fyrir að vera fyrsti þingmaðurinn í þessum sölum sem hefur hrósað bók sem ég gaf út fyrir tveimur árum, í þriðja lagi fyrir að horfa jákvæðum augum til framtíðar (Gripið fram í.) — þetta var „best comment“ — [Hlátur í þingsal.] því að hv. þingmaður er ekki aðeins að spekúlera í því hvort það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, hann er bókstaflega farinn að gera því skóna hvernig ný ríkisstjórn sem það gerði ætti að haga sér. Ég er honum ósammála um margt þar, en svara honum í ræðu minni hér á eftir. Ég tek eftir því að hann er strax farinn að velta upp þeim möguleika að ný ríkisstjórn kunni að sækja um eftir næstu kosningar.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Er hann mér sammála um að það séu í reynd engir stjórnskipulegir tálmar á því að ný ríkisstjórn geti tekið upp þráðinn og nýtt sér þá stöðu sem hún hefur í dag sem umsóknarríki með aðildarferli í gangi formlega?