144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sínum augum lítur hver silfrið. Það sem hv. þingmaður var í reynd að segja er að það er hægt að keyra áfram. Hv. þingmaður segir að bíllinn sé ekki í góðu lagi, en hann sagði ekki að búið væri að svipta hann leyfi til þess að keyra hann. Það er mergurinn málsins. Það er það sem mér finnst skipta mestu máli. Þess vegna tel ég eiginlega að kjarni umræðunnar liggi fyrir eftir yfirlýsingu hæstv. ráðherra, sem hefur auðvitað komið fram mörgum sinnum á umliðnum dögum að hv. þingmaður er sammála. Það skiptir mig mestu máli.

Það eru sumir sem líta svo á að aðild að ESB sé tæki til þess að koma Íslandi inn í stöðugt umhverfi, aðrir eru annarrar skoðunar. En það er alla vega ljóst að formaður utanríkismálanefndar, sem hefur meiri vigt en flestir í þessum sölum í utanríkismálum, er þeirrar skoðunar að ný ríkisstjórn geti keyrt áfram, en hann hefur sagt það í fyrri ræðu sinni að kannski þurfi hún eitthvað að kíkja á mótorinn áður, kannski þurfi hún að endurskoða ýmsa hluti. Það kann vel að vera. (Gripið fram í.)