144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að þræta við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson um hvernig aðstæður voru hér í þinginu síðasta vor. Mesti vandinn á sínum tíma var sá, ef ég man rétt, að það gekk svo illa að koma málinu á dagskrá vegna mikillar ástríðu þingmanna stjórnarandstöðunnar í því að tala um fundarstjórn forseta sem gert var dögum saman en áður en tímatalningin varðandi málið sjálft byrjaði. En það er allt önnur saga.

Það sem ég kýs að líta á í þessu máli eru annars vegar þau efnisatriði sem er að finna í þingsályktunartillögunni frá því í fyrra og hins vegar efnisatriði þessa bréfs. Þarna er um að ræða tvenns konar efnisatriði, ef við getum orðað það sem svo. Þetta eru ekki sömu efnisatriðin en auðvitað byggja bæði á þeirri meginstefnu ríkisstjórnarinnar að hún hyggist ekki halda áfram með aðildarumsóknarferlið. Þetta er ekki sama mál. (Forseti hringir.) Þetta er allt önnur nálgun. Efnisatriðin annars vegar í þingsályktunartillögunni í fyrra (Forseti hringir.) og hins vegar í bréfinu núna eru bara önnur.