144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:15]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og eins fyrir þær ræður sem hafa verið fluttar í dag. Það hefur verið farið víða í þessu máli og sami umkenningaleikurinn í gangi og venjulega þegar verið er að ræða þessi mál, bent á það sem hefur gerst áður og fyrr og á þessa tillögu og hina tillöguna.

Fyrir síðustu kosningar lofaði Sjálfstæðisflokkurinn og allir oddvitar hans í öllum kjördæmum að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili og það á fyrri hluta kjörtímabilsins. Það er þetta sem málið snýst um fyrir mér. Það er þetta sem málið snýst um fyrir fólki sem er að mótmæla úti á Austurvelli. Það er þetta sem 85% þjóðarinnar vilja fá að tala um samkvæmt skoðanakönnunum. En við förum hér í alls kyns lagaflækjur og dót sem enginn skilur og ekki heldur ég sjálfur, ég skal viðurkenna það. Ég spyr þingmanninn, sem að mínum dómi er einn heiðarlegasti þingmaður landsins og ber það með sér að vera heiðarlegur, hann er heiðarleikinn uppmálaður: Hvernig finnst honum að bera það á bakinu að vera að svíkja þjóðina? Að Sjálfstæðisflokkurinn, (Forseti hringir.) sem er kjölfestan í íslenskum stjórnmálum og hefur alltaf verið það í bæði utanríkismálum og öðru, sé að svíkja eitt (Forseti hringir.) stærsta kosningaloforð sem gefið hefur verið?