144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um þetta efni hefur töluvert verið rætt. Ég hef sagt við ýmis tækifæri að ég teldi að í ljósi atburðanna hefði orðaval ýmissa frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins verið óheppilegt í ljósi þess að þegar menn mynduðu ríkisstjórn komust þeir að þeirri niðurstöðu að það væri í raun og veru ómögulegt að efna þessi fyrirheit samkvæmt orðanna hljóðan. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðum í Kastljósi í síðustu viku að sjálfsagt hefði hann gefið allt of miklar væntingar til þess að þetta yrði niðurstaðan. Ég hins vegar vísa í það að samþykkt stefna Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2013, sem reyndar hefur verið ítrekuð síðan, er annars eðlis, þ.e. ekki er gert ráð fyrir því skilyrðislaust að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um hvaða ákvarðanir sem verða teknar varðandi afdrif málsins heldur eingöngu það að þjóðaratkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) skyldi koma til ef ætlunin væri að halda áfram.