144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Undanfarnir dagar hafa verið stórfurðulegir á allan hátt. Samkvæmt því sem komið hefur fram hjá ríkisstjórninni er markmið ríkisstjórnarinnar með þessu uppsagnarbréfi, sem er ákaflega loðmælt, að skýra stöðuna. Ef það er markmið ríkisstjórnarinnar að skýra stöðuna þá hefur það mistekist algjörlega því að ég held að fólk sé mjög ringlað. Margir átta sig ekki á því, ég hef heyrt í fólki sem heldur að við séum búin að slíta aðildarviðræðum. Margir sem hringja inn á Bylgjuna og Útvarp Sögu halda að búið sé að slíta aðildarviðræðum, en á sama tíma kom eftirfarandi fram á fundi utanríkismálanefndar í morgun með ráðherra: Utanríkisráðherra hefur átt í viðræðum við Evrópusambandið og er mikilvægt að utanríkismálanefnd fái nákvæmar upplýsingar um eðli samráðsins og hvaða línur voru lagðar þar. Komið hefur í ljós að samkvæmt ráðherra voru engin minnisblöð gerð, sem er ákveðið brot á formfestu í mikilvægum málefnum. Það var einmitt gagnrýnt mjög í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins. En í svari hæstv. ráðherra frá því í morgun kom fram að það skiptir máli hvaða orð menn nota, hvort menn tala um að „slíta“, „hætta“, „draga til baka“, því að að hans mati hafa þessi orð svipaða merkingu. Þá er það jafnframt mat hans að það sé mikilvægt að þegar við erum komin á þennan stað í ferlinu reynum við að fara fram með þeim hætti að við eyðileggjum ekki eitthvað til langrar framtíðar.

Að mati ráðherrans er það alveg skýrt í bréfinu að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að mati ráðherrans, það sé vilji ríkisstjórnarinnar og jafnframt hafi ráðherrann biðlað til Evrópusambandsins um að bregðast við með viðeigandi hætti.

Forseti. Það væri ákaflega gagnlegt ef hæstv. utanríkisráðherra gæti útskýrt hver viðeigandi viðbrögð séu af hálfu Evrópusambandsins.

Þá sagði hæstv. ráðherra að hægt hefði verið að skrifa tveggja lína bréf og segja: Við erum búin að slíta, draga til baka, hætta, eða eitthvað slíkt. En samkvæmt svörum ráðherra kaus hann að fara aðra leið sem gerir það að verkum að Ísland á og mun eiga gott samstarf við Evrópusambandið.

Ráðherra útskýrði jafnframt það sem komið hefði fram í þeim samræðum sem hann átti við kollega sinn, sem er í forsvari fyrir Evrópusambandið í dag, að hann hefði rætt við þennan kollega sinn um hver vilji ríkisstjórnarinnar væri. Hann ræddi ekki við þingið, hann ræddi ekki við utanríkismálanefnd fyrr en eftir á og eftiráskýringar duga ekki á þingi sem kennir sig við þingræði. En ráðherra sagði sem sagt hver vilji ríkisstjórnarinnar væri og að þeir vildu klára þetta með þeim hætti sem sómi væri að. Klára hvað? Enn er ekki hægt að fá fullan og eðlilegan skilning á því hvað það er sem verið er að klára.

Hv. þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra spurði sérstaklega um hvernig hinu lögformlega ferli væri háttað og bað um að fá minnisblöð og annað slíkt sem væri væntanlega til í ráðuneytinu, en viðbrögð ráðherrans voru þau að menn hefðu ekki skipst á neinum formlegum minnisblöðum.

Mig langar að beina þeirri spurningu til forseta hvort það teljist eðlileg vinnubrögð í svona stóru og miklu máli að ekki sé til neitt slíkt. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta mjög merkilegt, líka í ljósi þess að við þingmenn, allir sem einn, samþykktum ályktun um hvernig við ætluðum að bregðast við hruninu. Sú ályktun fól meðal annars í sér meiri formfestu til þess að fyrirbyggja að ráðherra mundi gera afglöp af því tagi sem leitt gætu til þess að kalla þyrfti saman landsdóm að nýju.

Við skulum ekki gleyma því hversu mikilvægt það er að halda formfestu. Það var einn af höfuðlærdómum þess sem við þingmenn, bæði ráðherrar og óbreyttir þingmenn, ætluðum að læra af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Það sem mér fannst merkilegast við orðræðu ráðherrans í morgun var að hann sagði að þetta hefði verið samtal sem átti sér stað til að útskýra vilja ríkisstjórnarinnar og til að þreifa á því hvernig svona bréfi yrði tekið. Það fundust mér vera stórtíðindi og stærstu tíðindin á fundinum í morgun. Ráðherra sagði að að sjálfsögðu gæti Evrópusambandið ekki sagt ríkisstjórninni hvernig það mundi bregðast við slíku bréfi, en það var hins vegar mat ríkisstjórnarinnar að láta á það reyna. Það eru tíðindin. Mér finnast þetta ákaflega merkileg tíðindi í ljósi þess að ég bar fram lokaspurningu á fundinum þar sem ég vildi fá það alveg kristaltært fram hvað væri í gangi af því að ég gæti ekki skilið þetta og ég held að enginn geti skilið hvað er í gangi. Annars vegar segir hæstv. ráðherra orðrétt að markmiðið hafi verið að núllstilla ferlið og hins vegar segist hann hafa verið í samráði við kollega sinn frá hinu hættulega og hryllilega Evrópusambandi um hvernig best væri að haga málinu þannig að ekki væri verið að skemma neitt til frambúðar.

Ég held að utanríkisráðherra þurfi að útskýra fyrir kollegum sínum í Heimssýn hvað er í gangi. Mér finnst það bara svo ótrúlega magnað hvernig hægt er að skrifa bréf og fara í einhverja framkvæmd með einhverju „intenti“ sem ekki er ljóst, því að „intentið“ eða markmiðið er tvírætt.

Meginrök ríkisstjórnarinnar fyrir því að fara í þetta ferli var svo það væri alveg skýrt og á hreinu hvernig Ísland ætlaði að haga sínum málum gagnvart Evrópusambandinu og að það vildi vera tekið af lista umsóknarlanda, en í raun og veru var ríkisstjórnin bara að biðja um að vera tekin af listanum. Það virðist vera það eina sem skiptir máli þannig að ríkisstjórnin geti haldið andlitinu gagnvart þeim sem eru á móti aðildarviðræðum. Ég verð að segja það, forseti, að mér finnst það vera ljótur leikur að setja hér allt samfélagið í uppnám, að ganga á svig við þingræðið til þess eins að láta taka orðið Ísland af einhverjum lista. En á sama tíma virðist það vera svo að markmið ríkisstjórnarinnar hafi verið að taka Ísland af listanum en halda áfram með málin þannig að engu væri lokað og næsta ríkisstjórn gæti þá haldið áfram aðildarviðræðum.

Því vil ég segja það, forseti, og mér finnst það gríðarlega mikilvægt, að eina leiðin sem við getum farið í svona drullumalli þar sem lýðræðið stendur svo höllum fæti, að við verðum að kalla eftir aðstoð frá þjóðinni. Við verðum að fá aðstoð frá þjóðinni til að vita hvert við erum að fara sem þing. Við sækjum umboð okkar til almennings. Alveg sama í hvaða flokki fólk er þá hafa allir þeir sem kusu veitt okkur umboð til að vera hér til þess að vernda og gæta hagsmuna allra, ekki bara einhverrar útvalinnar, lítillar klíku einhvers staðar sem byrjar á H.

Ég skora því á ráðherrann og ríkisstjórnina og alla þá þingmenn sem voru með mér á þingsályktunartillögu sem lögð var fram 19. október 2010 — hin orðprúða Vigdís Hauksdóttir, sem kallar mig vinstri hrægamm í dag, segir í þingsályktunartillögu sinni sem við vorum nokkur á, þar á meðal hv. Ásmundur Einar Daðason — þingsályktunartillagan ber yfirskriftina Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Í greinargerð með ályktuninni koma ansi merkilegir hlutir fram. Þess vegna finnst mér harla furðulegt að það skuli vera Framsóknarflokkurinn sem gengur svo hart gegn lýðræðinu miðað við hvað orðskrúðið er mikið þegar þeir vita að orðskrúð þeirra nær ekki í gegn.

Í greinargerð með ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Framkvæmdarvaldinu er skylt að fara að vilja Alþingis.“ Heyrirðu þetta, hæstv. utanríkisráðherra?

„Framkvæmdarvaldinu er skylt að fara að vilja Alþingis og hófst undirbúningsvinna að umsókninni í kjölfar samþykktar þingsályktunarinnar. […] „Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis“ — og nú er ég að miðla orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur — „er hörð gagnrýni á stjórnsýslu og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins og bent er á að gagngerra úrbóta sé þörf. Þingmannanefnd Alþingis kemst að sömu niðurstöðu. Beinar tillögur um úrbætur hafa verið settar fram í formi þingsályktunar sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Talið er brýnt að Alþingi styrki sjálfstæði sitt“ — heyrirðu þetta, hæstv. utanríkisráðherra? — „og grundvallarhlutverk. Endurskoða á meginlöggjöf á sviði stjórnskipunar, stjórnsýslu og fjármálamarkaðar. Þá skulu lög um Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitið og aðra eftirlitsaðila endurskoðuð, auk laga um fjölmiðla og háskóla svo að eitthvað sé nefnt. Þá á að fara fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða og á orsökum falls sparisjóða á Íslandi.“

Síðan segir hv. þingmaður:

„Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga um að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka. Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka, en minnt er á að sami þingmeirihluti situr nú og við samþykkt umsóknarinnar.“

Hér kemur nefnilega dálítið merkilegt fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur:

„Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka.“ Hvað hefur breyst, hv. utanríkisráðherra?

„Þingsályktunartillaga þessi, um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, er því sáttatilraun.“ Ég er enn að miðla orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. „Meiri hluti alþingismanna endurspeglar ekki meiri hluta þjóðarinnar í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu. Það er því á grunni sanngirnissjónarmiða sem þessi tillaga er lögð fram. Fari svo að samþykkt verði að sækja um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu á grunni þingsályktunartillögu þessarar hafa stjórnvöld fengið skýrt umboð í hendur, ekki fyrr.“

Þá segir áfram, með leyfi forseta:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla er viðurkennd aðferð til að leiða fram þjóðarvilja í mikilvægum málefnum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins er brýnt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Allir stjórnmálaflokkar tala fyrir auknu lýðræði og beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku, sér í lagi þegar um stór deilumál er um að ræða. Nú reynir á að sýna þann vilja í verki.“

Forseti. Ég vil benda á að þjóðarviljinn í þessu máli er ákaflega skýr. Hér fór fram rosalega merkileg skoðanakönnun sem var undirskriftasöfnun sem hófst að kvöldi sunnudagsins 23. febrúar og lauk sunnudaginn 27. apríl, eftir páska. Söfnun stóð því samtals í 63 daga og er henni beint til okkar allra 63 þingmanna. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að hann er þingmaður.

Áskorunin er þessi: Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt: Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem hófst með ályktun Alþingis 16. júlí 2009 eða vilt þú slíta þeim?

Ég vil minna hæstv. utanríkisráðherra á það að 22% kosningarbærra manna skrifuðu undir þessa áskorun á tveggja mánaða tímabili sem eru 53.555. Mér þætti mikill sómi að því ef ríkisstjórnin mundi snúa við þessu fáheyrða bréfi sem hefur enga merkingu aðra en þá að slá ryki í augun á hörðum andstæðingum Evrópusambandsins og sniðganga þjóðarviljann. Hæstv. ríkisstjórn með hæstv. forsætisráðherra í fararbroddi hefur oft talað um nauðsyn þess að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um mikilvæg mál eins og kom skýrt fram í ræðu minni þar sem ég miðlaði í gegn orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.

Því vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. utanríkisráðherra að hann taki áskorun minni hluta Alþingis sem mun verða lögð hér fram á næstu dögum um að fólkið, sem kallar eftir því að fá aðkomu að svona mikilli ákvörðun, fái vilja sínum fullnægt með þjóðaratkvæðagreiðslu sem muni eiga sér stað á haustdögum.