144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ekki síst fyrir að flytja okkur þessa góðu ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem ég hafði gleymt. Ég gerði mér enga grein fyrir því að þar er sú skoðun hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur skráð í þingtíðindi að Alþingi sé eini vettvangurinn þar sem hægt að er að draga til baka þessa ákvörðun okkar 2009. Með öðrum orðum, hv. þingmaður er að segja það, lærður lögfræðingur, eins og hún þreytist nú ekki á að minna okkur á hér, hin ágæta hv. stallsystir okkar, að hún telur að leggja verði fram sérstaka þingsályktunartillögu til þess að hægt sé að slíta. Hver veit? Kannski var það hún sem kom vitinu fyrir hæstv. utanríkisráðherra, ekki veit ég það.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir hnífskarpa greiningu hennar á því hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra. Hún sagði að markmiðið væri það að geta komið heim frá Brussel með óbreyttan feril en hins vegar tekið okkur af lista yfir umsóknarríki og geta sagt við Heimssýn: Sjáið hvað ég var duglegur.

Þá rifjast það upp fyrir okkur sem hæstv. ráðherrann sagði hér í dag; það að taka Ísland af lista umsóknarríkja þýðir í reynd bara tvennt. Í fyrsta lagi fáum við ekki boð til þess að sækja fundi sem við erum nú þegar hætt að sækja. Í öðru lagi verður ekki haft samráð við okkur um tiltekin sameiginleg málefni sem umsóknarríki heldur sem EES-ríki.

Þá spyr ég hv. þingmann: Hvern var verið að blekkja? Var það virkilega svo að tilgangurinn var sá einn, ég dreg þá ályktun af orðum hv. þingmanns, að blekkja Heimssýn og láta vesalings fólkið þar sem taldi að það ætti leiðtoga í hæstv. utanríkisráðherra halda að hann væri að ná fram markmiðum þess þegar markmiðið var eftir allt saman (Forseti hringir.) að hafa ferilinn bara óbreyttan?