144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Það er alltaf gaman að eiga orðastað við hv. þingmann og fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Ég búin að hugsa rosalega mikið um þetta, viða að mér upplýsingum sem tengjast þessu máli og hlusta vel á þinginu, hlusta vel á hvernig sumir túlka þessa för og ýmis viðhorf, m.a. forseta Alþingis um gildi þingsályktana. Mér sýnist á öllu að hv. þingmaður hafi hárrétt fyrir sér. Þarna er í raun og veru verið að gera kosmíska aðgerð sem hefur enga þýðingu, enga merkingu en við megum samt ekki gleyma því hvert er hið yfirlýsta „intent“ með þessum gjörningi. Að fara á svig — þetta er svo dýr gjörningur fyrir þingræðið. Það er það sem mér finnst erfiðast að kyngja af því að nú nota menn tækifærið og kippa rammanum úr sambandi. Þetta er dýr gjörningur til að friða örfáar sálir.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn mælst mjög illa í skoðanakönnunum þrátt fyrir leiðréttinguna og allt þetta. (Gripið fram í.) Þetta er kannski leið til þess að reyna að ná fylginu upp, ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað vakir fyrir utanríkisráðherra og Framsóknarflokknum, en ég vona að við fáum skýr svör við því þegar ráðherra kemur í ræðustól á eftir.