144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekki viss um að það sé endilega markmið hæstv. ráðherra. Ég sé það nú ekki miðað við þær miklu undirtektir sem krafa okkar um þjóðaratkvæði hefur fengið meðal þjóðarinnar og hefur notið um langt skeið, að þeir kroppi mörg atkvæði með þessu. Ég tel að svo sé nú ekki. Svo ég komi nú hæstv. ráðherra aðeins til varnar, gæti það verið að hann hafi verið settur í ómögulega stöðu? Við vitum að hæstv. forsætisráðherra fór fram með töluvert nokkru offorsi hér snemma árs og lýsti því yfir að farið yrði fram með tillögu á þinginu. Hver á að fara fram með þá tillögu? Auðvitað hæstv. utanríkisráðherra sem var settur í það kóngsins járn og arbeið. Við vitum það líka úr því samfélagi sem Alþingi er að það var ekki mikill hljómgrunnur fyrir því meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Er hugsanlegt að hæstv. utanríkisráðherra hafi lent í þessari klemmu, að hæstv. forsætisráðherra hafi krafist þess að málinu yrði lokað formlega gagnvart ESB, þ.e. með slitum, hæstv. fjármálaráðherra hafi verið annarrar skoðunar og hann hafi reynt þessa þrautalendingu? Það er mögulegt og það er kannski eina skýringin sem ég hef á því af hverju hæstv. ráðherra fer í þessa sjóferð.

Klárt er það að hann var mjög óviss um það sjálfur. Ég man ekki eftir því nokkru sinni fyrr að einn ráðherra hafi haft uppi margar skoðanir á sínu eigin bréfi. Hæstv. ráðherra ritaði undir bréfið. Á stundum fannst manni eins og hann hafi tæpast lesið það og hafi hann lesið það hafi hann þá ekki skilið það. Ég held nú að liggi ekki þannig í málinu. Hann var að lenda málinu. Ég held að þetta hafi verið leiðin, að geta komið heim og sagt: Þetta jafngildir því að slíta. En eins og hv. þingmaður bendir á er verið að varðveita ferilinn. Það eina sem gerist er það að hæstv. ráðherra lendir í útistöðum og orðaskaki við fjölmiðlafulltrúa Evrópusambandsins.