144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er ómögulegt að lesa almennilegar í þessi telauf, en ég verð samt að segja að mér finnst þetta alveg rosalega neyðarlegt. Það eru mjög margir erlendir fjölmiðlar búnir að hafa samband við mig til þess að fá einhverja útskýringu á því hvað er í gangi. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara. Mér finnst þetta fyrst og fremst pínlegt.

Síðan langar mig að nefna einn punkt sem við fengum ábendingu um frá einstaklingi á okkar ágætu fésbókarsíðu. Það er ábending og punktur sem vert er að halda til haga. Og af því að ég er sérstaklega innblásin af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur ætla ég að minnast hér á Icesave. Icesave var þannig að haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla sem var ekkert endilega í takt við það sem ríkisstjórnin vildi, en ríkisstjórnin fann sig knúna til þess að framfylgja niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Farið var í mikla þverpólitíska vegferð og ég hef ekki tölu á því á hversu marga fundi ég fór með þáverandi forustufólki ríkisstjórnarinnar til þess að finna lausn. Þess vegna finnst mér ríkisstjórninni engin vorkunn þó að þjóðin staðfesti vilja sinn til að halda áfram í þessu ferli. Það er ekki verið að krefjast þess að hún fari og opni sjávarútvegskaflann, heldur haldi bara ferlinu áfram. Ég held að það væri mikil vegtylla fyrir ríkisstjórnina ef hún mundi vilja hlusta á vilja þjóðarinnar.

Ég var í stjórnarandstöðu sem kallaði eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni á síðasta kjörtímabili og ég er í stjórnarandstöðu núna sem kallar eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um stór pólitísk mál sem ekki er hægt að leysa hér inni. Við vitum það, við erum ekki fær um það. Ég vona bara að Framsóknarflokkurinn hlusti á Vigdísi Hauksdóttur (Forseti hringir.) í þessu máli.