144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða bréf hæstv. utanríkisráðherra. Við erum stödd á árinu 2015. Það er marsmánuður. Við erum að velta fyrir okkur hvar Evrópumálin standa í dag og hvert beri að stefna í þeim efnum. Hér kemur enn einn stjórnaliðinn og vill fara aftur til um það bil ársins 2009 (BÁ: Nei, ég var að spyrja …) og eftir atvikum velta fyrir sér fræðilegum spurningum, svona „hypothetical“ spurningum, um það hvernig, ef fram kæmi tillaga með tiltekinni spurningu, ég mundi ráðleggja þjóðinni að greiða atkvæði í þeirri atkvæðagreiðslu, ef til kæmi. Þetta er út af fyrir sig áhugavert viðfangsefni, en ég bendi á hvað við erum að ræða. Við erum að ræða stöðu Evrópumálanna hér og nú. Við erum að ræða bréf utanríkisráðherra og við erum að ræða hvernig utanríkisráðherra stóð að samskiptum við Alþingi o.s.frv.

Já, ég tel að við séum þannig stödd með þetta mál, og höfum kannski verið lengi, að vegna bæði stærðar þess og hversu erfitt það er þjóðinni, vegna þess hversu tiltölulega skiptar skoðanir eru í því sem skera flokksbönd, og við þekkjum öll vel, sé málið þannig vaxið að í raun eigi að taka öll meiri háttar skref sem varða meðferð þess í samráði við þjóðina. Ég er hlynntur því eftir atvikum, hvernig sem það ber að að menn telja að nú þurfi að halda á málinu einhvern veginn áfram inn í framtíðina, að það verði gert á grundvelli leiðsagnar þjóðarinnar. Við erum búin að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki voru til á sínum tíma og við erum komin í nokkra æfingu, eins og kunnugt er. Það mundi því ekkert vefjast voðalega fyrir okkur, held ég, að setja saman spurningar og bera þær undir þjóðina.

Auðvitað verður með einhverjum hætti að skýra stöðu þessa máls og leiða það til lykta, a.m.k. til einhvers tíma litið, þannig að við vitum hvert landið stefnir í þeim efnum. Það er ein af ástæðum þess að ég taldi það á mig leggjandi að reyna að fara í viðræður og fá á hreint hvort Íslandi byðust einhverjar þær sérlausnir að þær breyttu (Forseti hringir.) verulega mati manna á málinu og þjóðin kvæði svo upp úr hvað hún vildi. Ég er enn svipaðs sinnis, að (Forseti hringir.) að því marki sem við þurfum að taka einhverjar ákvarðanir (Forseti hringir.) um framhaldið gerum við það í samráði við þjóðina.