144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að taka það fram er ég með engu móti að festa mig í árinu 2009 í þessu sambandi. Ég gat þess samhengisins vegna vegna þess að þar birtist ákveðin afstaða til álitaefnis sem við kunnum að standa frammi fyrir, jafnvel á næstu dögum ef fulltrúar stjórnarandstöðunnar leggja fram tillögu af því tagi sem þeir hafa gefið til kynna. Ég veit ekki hvort hægt er að segja að hún hafi verið boðuð, en alla vega hefur verið gefið til kynna að slík tillaga muni koma fram af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna.

Eins og ég segi eru þetta tvær spurningar. Annars vegar er það spurningin hvort menn telji að rétt sé á þessum tímapunkti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna og þeirri spurningu svaraði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skýrt. Ég heyrði ekki að hann svaraði síðari spurningunni, sem ég hugsa að við verðum öll spurð þegar fram í sækir, en hún er hver afstaða okkar er til þess. Viljum við að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði framhald viðræðna eða teljum við að það sé ekki æskileg niðurstaða? Mér finnst ekki óeðlilegt í ljósi þess að við, sem höfum verið þátttakendur í þessari umræðu og höfum mótað okkur afstöðu til Evrópusambandsins og höfum mótað okkur afstöðu í þeim málum öllum, látum í ljós afstöðu okkar til þess hvort við teljum að það sé ferðarinnar virði að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið og rökstyðjum þá afstöðu okkar gagnvart (Forseti hringir.) þjóðinni ef hún kemur til með að taka afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu.