144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins meira um utanríkisstefnuna og þann svip sem er á henni. Það var einn af fyrrverandi forsætisráðherrum lýðveldisins sem líkti þessu við að það hefði verið sett í hendur leikskólabarna eða leikskóla að móta utanríkisstefnuna, en þannig er nú upplitið á þessum málatilbúnaði að aðstandendur leikskóla tóku það sem svera móðgun að jafna því góða starfi sem þar fer fram við þau ósköp og skil ég þá vel. Auðvitað var það móðgandi í garð leikskólanna eða leikskólabarnanna að láta sér detta í hug að (Gripið fram í.) þau hefðu ekki staðið betur að þessu en þetta. Það er alveg rétt.

Varðandi hvað mönnum gengur hér til hefur hæstv. ráðherra vissulega með svörum í dag og ræðuhöldum gefið sterklega í skyn að í og með hafi þessi fjallabaksleið verið farin til þess að komast fram hjá Alþingi. Það var ekki hægt að ráða annað af geðvonskulegum andsvörum og svörum hæstv. ráðherra um að þingið hefði tekið málið í gíslingu og stundað málþóf og komið í veg fyrir atkvæðagreiðslur með ræðuhöldum og hvað það nú var sem hér var borið upp á þingmenn, sem höfðu að vísu rætt í eina fjóra daga um þingsályktunartillöguna við fyrri umræðu hennar. Síðan gekk hún til nefndar og sofnaði þar og vantaði þó meiri hlutann ekki afl til þess að koma henni út úr nefndinni ef hugur manna hefði staðið til þess. Þannig að einhverju leyti er það það.

Ég hallast að því að þessi orðaleikur eins og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og baráttumaður gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, Styrmir Gunnarsson, kallar það réttilega sem þarna er farið í eigi að þjóna einhverjum heimatilgangi. Það er oft þannig, því miður, að menn hugsa í skammsýni sinni bara ekkert lengra en þetta, hvernig get ég til heimabrúks komið með einhvern dúsk sem ég get veifað? Þetta lítur svolítið þannig út.

Ég held að lykilspurningin sé ekki hvort við verðum áfram á einhverjum listum á heimasíðum hjá ESB. Stjórnskipulega og lagalega er þetta spurningin um það ef Ísland ætlaði að fara af stað í viðræður á nýjan leik hvort öll (Forseti hringir.) 28 aðildarríki Evrópusambandsins yrðu að samþykkja (Forseti hringir.) það á nýjan leik, ráðherraráðið og framkvæmdastjórnin o.s.frv. Ég lít svo á að það liggi nú fyrir að svo yrði ekki.