144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst draga upp ágæta mynd af því hvað hér er á ferðinni. Það er náttúrlega bara þannig að upplýsingarnar sem við höfum fengið, þversagnirnar í málflutningi ráðherrans, samráðherra hans og annarra þingmanna stjórnarliðsins, hafa verið með þeim hætti að maður hefur þurft að púsla saman inn í einhverja heillega mynd hvað í raun og veru er hér á ferðinni. Mér fannst hv. þingmaður gera það ágætlega.

Hann fór ágætlega yfir það hvað hann teldi vera hér á ferðinni gagnvart þessu innanlandsbrúki, en það sem ég velti fyrir mér er hins vegar hvaða áhrif þetta geti haft á samskipti okkar og ríkja Evrópusambandsins, hvaða áhrif þetta geti haft á trúverðugleika Íslands í utanríkismálum og það sem á eftir mun koma í því. Ég á núna í djúpu samstarfi, sem menn hafa einhvern veginn engan áhuga á að ræða lengur, þ.e. ríkisstjórnin, í gegnum EES-samninginn við þessi sömu ríki sem menn reyna að teikna upp einhverja grýlumynd af hér í þinginu til heimabrúks. Við lifum á þannig tímum að allt sem hér er sagt fer þýtt út og þess vegna velti ég fyrir mér og mig langar að biðja hv. þingmann að segja mér hvernig þetta blasi við honum.