144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að staldra við vangaveltur hans undir lok ræðunnar um vinnufrið í þinginu. Við hv. þingmaður deilum því að fara með póst þingflokksformanna í þingflokkum okkar og ég hef sjálf velt dálítið fyrir mér hvað það er sem býr til vinnufrið í þinginu og hvað það er í raun og veru sem skapar þá daga sem maður gengur sáttur frá borði og hugsar með sér: Þetta var góður dagur og hér var þingið virt og pössuðum við upp á það verðmæta umboð sem við höfum fengið frá kjósendum og ræktum okkar mikilvæga verkefni vel. Af hverju skapast vinnufriður? Hvað er það sem skapar þau skilyrði að vinnufriður sé fyrir hendi? Sjálf er ég mjög hugsi þessa dagana og það má eiginlega segja að það glymji í höfðinu á mér aftur og aftur þetta hróp fjármálaráðherra hérna í gær, þegar hann æpti yfir þingsalinn: Meiri hlutinn ræður. Þetta var einhvers konar frumöskur frumsjálfstæðismannsins sem er sjálfstæðismaðurinn óháð nafni og kennitölu, sem hefur ráðið á Íslandi allan lýðveldistímann. Þetta kemur einhvern veginn djúpt úr iðrunum og þá áttar maður mig sig á meirihlutaofbeldinu sem Ísland hefur alltaf búið við og endurspeglaðist í þessu öskri, í frumstæðu öskri þessa vel uppalda drengs úr Garðabænum þar sem hann tengdi sig svona djúpt við þetta verkefni Sjálfstæðisflokksins á öllum lýðveldistímanum. (Forseti hringir.) Í mínum huga er það svolítið þetta sem við erum að glíma við þegar við náum góðum árangri í því að búa til góða stemningu hér í þinginu, þetta andrúmsloft.