144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi ótrúlega margir Íslendingar haft væntingar um að það yrðu breytingar á Íslandi, að það yrðu breytingar við efnahagshrunið og uppgjörið eftir það. Í þingsályktuninni sem við samþykktum öll hér í þinginu í september 2010 segir meðal annars í fyrstu málsgreininni, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.“

Ögn síðar:

„Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

Ég man eftir því sjálf að taka þátt í bæði þessari umræðu og atkvæðagreiðslu í þinginu og ég held að það hafi verið alveg full alvara á bak við það, fólk hafði trú á því að við værum að fara inn í nýja tíma, að við mundum öll læra af þessu og líka þau okkar sem vorum þá í ríkisstjórn, sem átti við ramman reip að draga að svo mörgu leyti.

Síðan er það sem við sjáum hér, bæði með bréfi utanríkisráðherrans sem er brattur og gleiður í samskiptum við þingið og fjármálaráðherrann með stæla hér í gær og forsætisráðherrann alltaf með einhverja digurbarkalega stæla, þetta eru ungir menn, kornungir menn, sem virðast ekki átta sig á því hversu mikilvægt það er að ná fram úr þeirri gömlu pólitík sem leiddi okkar inn í efnahagshrun, bankahrun, stjórnmálahrun og sögulegt móralskt hrun á Íslandi. Ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) hvaða leið við höfum. Hver eru næstu skref fyrir okkur sem erum hér hollvinir lýðræðisins?