144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er þetta ósköp einfalt, það er keppikefli þeirra sem eru helstu forsvarsmenn dólgapólitíkurinnar og þess að ganga fram með offorsi og látum og dónaskap að draga alla niður á sitt plan. Þeir eru aldrei glaðari og aldrei keikari en einmitt þegar þeim hefur tekist að gera alla brjálaða, vegna þess að þá eru allir eins og þeir. Þá er þetta bara pólitík, þá er komin afsökun fyrir því að þeir hafi hagað sér eins og þeir haga sér í pólitík. Framgangan miðast auðvitað við að ögra og búa til úlfúð, tortryggni og geta þannig sagt að það séu bara allir í pólitík hérna og ekkert hafi í rauninni breyst. Andstaða minni hlutans sé í raun og veru af sama toga og andstaða minni hlutans á síðasta kjörtímabili, það sé alltaf verið að ganga yfir minni hlutann hvort sem er. Það var gert síðast og þess vegna gerum við það núna o.s.frv. Ef þetta sjónarmið verður ofan á mun aldrei neitt breytast.

Sem betur fer er til ráð við þessu. Þetta er algerlega í höndum þeirra sem stjórna landinu, þ.e. almennings, þeir geta sleppt því að kjósa svona menn. Þeir geta velt fyrir sér hvernig þessi hegðun er, hver gerir hvað í þessu máli, hver segir hvað, hvernig það kemur fram og sleppt því að kjósa svona menn í næstu kosningum og þá breytum við þessu. Það er svoleiðis. Auðvitað mega þeir sem koma hingað inn með það að markmiði að breyta stjórnmálunum ekki vera svo, svo ég leyfi mér að sletta, „naív“ að þeir láti einfaldlega vaða yfir sig með alls konar ósvífni og dónaskap og mótmæli því í engu, enda erum við að því hérna, við erum að mótmæla því að verið sé að gera tilraun til þess að fara með meiri háttar (Forseti hringir.) utanríkismál fram hjá þinginu — án umræðu.