144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn sé þó ekki sammála mér um að það eigi að vera almenn regla að ráðherrar ríkisstjórnarflokks hafi þingflokk sinn með í ráðum með stórar ákvarðanir, láti þingflokkinn að minnsta kosti vita áður en væntanlegt fréttaefni fer út og sé í samráði við þingflokkinn frá degi til dags.

Með þeim röksemdum sem hv. þingmaður setur fram hér má velta því fyrir sér hvaða tilgangur sé yfir höfuð með þingflokksfundum Framsóknarflokksins, ef Framsóknarflokkurinn, og þingflokkur hans, lítur svo á að fundur 19 klárra og skýrra atkvæða með stefnu ríkisstjórnarinnar sé bara formsatriði, alveg sama hver birtingarmynd hennar er á hverjum tíma.