144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er hægt að sleppa því tækifæri — þegar framsóknarmenn, óbreyttir þingmenn, ræða mál sem er á dagskrá eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir var að gera, sem ég vil þakka fyrir — að koma í ræðustól og eiga andsvar við hv. þingmann. Það er nefnilega ekki oft sem maður kemst í andsvör við óbreytta þingmenn Framsóknarflokksins til að skiptast á skoðunum eins og andsvör eiga að ganga út á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég heyrði ræðu hennar að mestu, hvað henni finnist um þau orð sem forsætisráðherra lét falla fyrir kosningar, að þjóðin fengi að kjósa um áframhald viðræðna. Hvernig lítur nýr þingmaður, eins og hv. þingmaður er, sem vill veg og virðingu Alþingis sem mesta, á það þegar stjórnmálaforingjar, sama hvað þeir heita, í þessu tilviki formaður (Forseti hringir.) viðkomandi flokks, koma hingað og svíkja það (Forseti hringir.) á eftirminnilegan hátt eins og verið er að gera?