144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir klisjukenndustu rökin gegn ESB. Ég velti því svolítið fyrir mér hvort maður ætti að spyrja hvernig þetta komi okkur við fyrst þingið á ekkert að vera að ráða þessu á annað borð. En ég ætla að sleppa því og óska þess ekki að hv. þingmaður svari þeirri spurningu, ég ætla að fara betur út í það sjálfur í ræðu minni á eftir. Ég óska bara eftir andsvörum hv. þingmanns ef hann hefur eitthvað við það að athuga.

Hv. þingmaður fór einnig út í undanþágur og þá orðræðu að það séu engar varanlegar undanþágur frá ESB. Nú langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður vilji þá meina að til dæmis Danmörk njóti ekki undanþágu á sviði innanríkis- og dómsmála og Danir séu ekki undanþegnir varnarmálastefnu Evrópusambandsins og standi ekki utan stefnu ESB í innflytjendamálum og málefnum hælisleitenda.