144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér áhugavert vegna þess að ég man eftir að hafa lesið skýrslu hérna fyrir um ári síðan þar sem var einmitt farið í sjávarútvegskaflana og landbúnaðarkaflana og þá staðreynd að þeir hafa ekki enn þá verið opnaðir og höfðu ekki verið opnaðir þegar hlé var gert á viðræðunum hérlendis. Það kemur skýrt fram í þeirri skýrslu, eða hvað á maður að segja, ég lýsti því á þeim tíma sem „cliff hanger“, það var ekkert útséð með þau mál. Evrópusambandið, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, breytist með tímanum. Þetta eru viðræður, þetta eru samningaviðræður, og þess vegna þykir mér orðræðan áhugaverð, og ég biðst afsökunar á því að hafa kalla þetta klisjukennt ef það fór á minnsta hátt fyrir brjóstið á hv. þingmanni. Það var ekki ætlun mín að móðga einn né neinn hér.

Við vitum að Evrópusambandið breytist. Við vitum að það tekur mörg ár að sækja um og við vitum að það er ekki búið að opna kaflana um landbúnað og sjávarútveg. En samt sem áður er þessi ofboðslega fullyrðingagleði. Við vitum að það eru varanlegar undanþágur til staðar eins og er í nokkrum málaflokkum, að því er virðist, nema hv. þingmaður vilji rengja mig (Forseti hringir.) frekar og bið ég hana þá um að gera það.