144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, og þetta svar eða þessi tilkynning, eða hvað maður á að kalla það, frá Evrópusambandinu undirstrikar einmitt að það stemmir ekkert að hæstv. utanríkisráðherra hafi sent þetta bréf að beiðni Evrópusambandsins, ef ég skildi rétt, til að skýra afstöðuna. Afstaða yfirvalda var fullkomlega skýr hér, hún var fullkomlega skýr fyrir Evrópusambandinu líka. IPA-styrkirnir eru farnir. Af hverju? Vegna þess að afstaðan var skýr og hefur verið skýr frá upphafi, reyndar svo skýr að maður er orðinn þreyttur á því að tala um hana.

Hún stemmir ekkert þessi saga, sem gefin er í skyn, að ríkisstjórnin hafi þurft að útskýra afstöðu sína fyrir ESB með bréfi, sem virðist hafa farið til rangs aðila í þokkabót. Og ekki nóg með það heldur hefur það einfaldlega flækt málið fram úr öllu, þannig að nú höfum við eytt dágóðum tíma í að reyna að átta okkur á því hver staðan sé og fáum það í fréttum frá Evrópusambandinu að allt sé óljóst.

Ég verð sömuleiðis að taka undir það að það er ekki heppilegt fyrir hagsmuni Íslands að hafa stöðuna óljósa. Það er það versta af öllu. Það er eitthvað sem maður hefði haldið að enginn vildi. Maður hefði haldið að þeir sem vilja fara í ESB vildu hafa þá stöðu skýra að Ísland væri umsóknarríki og um væri að ræða hlé en ekki endanleg slit. Maður hefði haldið að þeir sem vilja ekki fara í ESB vildu hafa þá stöðu skýra að við séum ekki umsóknarríki, sem var jú opinberlega ætlun hæstv. utanríkisráðherra, og að það sé skýrt að við förum ekkert þangað, að dyrnar séu lokaðar, ef svo mætti að orði komast.

Hvorugt er skýrt, hvort tveggja er óljóst. Og það eftir að hæstv. utanríkisráðherra, eftir að hafa sniðgengið Alþingi, reynir stoltur (Forseti hringir.) að skýra málið. Þetta er náttúrlega farsi (Forseti hringir.) virðulegi forseti.