144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að það vefjist fyrir ráðherraráði Evrópusambandsins að skilja hvert Ísland er að fara með þessum bréfaskiptum utanríkisráðuneytisins eða utanríkisráðherra, jafn margreyndir stjórnmálamenn með víðtæka reynslu og þar nú sitja, því að utanríkisráðherrann heldur sig ekki við sömu túlkunina frá einu viðtalinu til annars. Þegar erlendir samstarfsaðilar okkar fara yfir yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar, formanna stjórnarflokkanna, þá stangast þær á í veigamiklum atriðum frá einni vikunni til annarrar. Þannig lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir örfáum dögum fyrir kosningar að Framsóknarflokkurinn gerði ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hann lýsti því yfir eftir kosningar, á Laugarvatni, að hann gerði ráð fyrir að hún færi fram á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Formaður Sjálfstæðisflokksins er löngu orðinn landsfrægur fyrir þau ósvífnu og ófyrirleitnu svik á skýrum kosningaloforðum sínum sem hann er orðinn ber að og hefur með því svipt sig öllum pólitískum trúverðugleika til framtíðar. Ég spyr hv. þingmann hvort þessi framganga dragi ekki bara úr trúverðugleika þessara manna heldur úr trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi og hvort ekki sé með þessum skrípalátum vegið að verulegum hagsmunum og valkostum í framtíðinni hér Íslandi, hvort þeim hagsmunum sé ekki stefnt í hættu að komandi kynslóðir geti tekið upp umsóknina ef þær svo kjósa, t.d. ef aftur kemur til neyðarástands undir forustu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins eins og fyrir örfáum árum.