144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Við erum náttúrlega í þessari umræðu um skýrslu utanríkisráðherra vegna fordæmalausra bréfasendinga utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, sem gefið hafa tilefni til umræðu um stöðu þingsins og þingræðisins.

Það sem ég vil ræða við hv. þingmann í þessu andsvari er að ríkisstjórn Íslands virðist telja eðlilegt að í stað þess að leita til Alþingis að leita til Evrópusambandsins, erlends ríkjasambands, um orðalag á bréfi, orðalag á bréfi sem er óljóst hvað átti að þýða og hefur auðvitað komið í ljós að hefur enga þýðingu fyrir utanríkisstefnu Íslands. Það eina sem komið hefur í ljós er að bréfið gerir Ísland að athlægi.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi orðið ákveðin vatnaskil á Alþingi þegar ríkisstjórn þorir ekki að bera upp stefnubreytingu, telur sig geta gert svona af því að hún hafi meiri hluta, meiri hluta sem hún þorir ekki að láta reyna á. Ég velti fyrir mér: Hvernig getum við sem þingmenn hér varist stjórnarháttum sem þessum?