144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir um ári síðan stóðum við hér mjög hneyksluð yfir því að þjóðin skyldi ekki spurð um þetta mál eins og lofað hafði verið. Nú stöndum við frammi fyrir alveg nýju vandamáli sem er það að ríkisstjórnin treystir ekki Alþingi til að fara með málið.

Nú segja hæstv. utanríkisráðherra og fleiri úr hans röðum að við getum lagt fram vantrauststillögu. Þeir virðast ekki alveg meðvitaðir um hvernig vantrauststillögur virka eða þingstörf almennt. Þegar maður leggur fram þingmál gerir maður það vissulega með ákveðnar væntingar um það hvernig því þingmáli verði tekið.

Það er alveg ljóst hver niðurstaðan var í kosningunum 2013. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu um 51,1% reiknaðra atkvæða. Það er reyndar hægt að reikna það öðruvísi, ef maður reiknar út öll greidd atkvæði fengju þeir minna en 50%, en það er svo sem umræðuefni fyrir annan tíma. Þeir fengu sem sagt 51,1% og 60% þingmanna, 38 af 63, og þeir hafa enn þá þetta vald þrátt fyrir að hafa klárlega misst virðingu almennings og umboð sitt samkvæmt skoðanakönnunum. Þeir þora ekki að fara í lýðræðislega umboðið með þjóðaratkvæðagreiðslu og þeir þora ekki einu sinni í lýðræðislegt umboð Alþingis þrátt fyrir að hafa þar meiri hluta. Þeir þora ekki inn í þingferlið sjálft af ástæðum sem mér eru reyndar óljósar, vegna þess að eftir allt og enn og aftur þá dagaði málið uppi í hv. utanríkismálanefnd en ekki hér á dagskrá þingsins í seinni umræðunni (Forseti hringir.)