144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því stundum fyrir mér sjálfur hvað í ósköpunum við þykjumst vera að gera hér og velti því reyndar fyrir mér í byrjun ræðu minnar. Við höfum heldur ekki rætt nógu ítarlega hvað felst í þessari kröfu um vantraust, við höfum ekki alveg „analýserað“ það nógu vel, en vanvirðingin gagnvart Alþingi sem felst í þeirri afsökun er hugsanlega meiri en sú sem felst í því að réttlæta það að sniðganga Alþingi á þeim forsendum að því sé ekki treystandi fyrir eigin málefnum, fyrir eigin ákvarðanatöku.

Þegar sagt er að Alþingi geti bara lýst vantrausti á ríkisstjórnina þýðir það að minnsta kosti tvennt: Annars vegar: Farið heim! Hvað eruð þið að gera hérna? Ríkisstjórnarmeirihlutinn er með 38 á móti 25, þ.e. þeir sem eru í ríkisstjórn á móti þeim sem ekki eru í ríkisstjórn. Og meðan ég man, flokkur virðulegs forseta, sem er jú hluti af þessu valdi öllu saman, er í meiri hluta. Ef við eigum ekkert að hafa um málin að segja án þess að leggja fram vantrauststillögu er það vantraustsyfirlýsing af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar á Alþingi.

Og já, það eru kaflaskil, virðulegi forseti. Annað sem þetta segir, sem ég bið hæstv. utanríkisráðherra og virðulegan forseta að íhuga, er að þegar ríkisstjórnin segir við Alþingi að það geti lagt fram vantrauststillögu ef það er óhresst með ákvarðanir ríkisstjórnarinnar er ríkisstjórnin líka að segja að hún telji sjálfsagt að ganga svo langt, að hún ætli bara að ganga eins langt og þarf og telji sig geta gengið alveg upp að þeim mörkum, pólitískt og lýðræðislega, alveg þar til það kallar á vantraust. Vantraust er síðasta hálmstráið, það er það síðasta sem maður gerir í umræðum sem þessum. Þetta er málefni sem tilheyrir þinginu, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) við eigum að vera að ræða við aðra þingmenn. (Forseti hringir.) Það er ekki ríkisstjórnin sem er aðalatriðið hérna. Alþingi er aðalatriðið hérna.