144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra út af dæmalausu bréfi sem hann tók að sér að fara með til Evrópu í síðustu viku.

Virðulegi forseti. Það virðist vera að ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna um þá svikaferð hafi verið leynimakk og svikaráð þegar maður fer yfir ferlið. Á mánudag er þetta ekki rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna á þingflokksfundi. Í ríkisstjórn er þetta tekið fyrir á þriðjudeginum. Ekkert er sagt um hvað eigi að gera. Á miðvikudaginn eru þingflokksfundir hjá öllum og þar á meðal hjá stjórnarflokkunum og þar er þetta ekkert rætt. Á fimmtudaginn er boðað til funda þingflokkanna, (Utanrrh.: Það voru ekki þingflokksfundir.) þeir hafa þá kannski verið felldir niður til að ræða þetta ekki. En á fimmtudag voru fundir boðaðir seint og um síðir þar sem þeim sem mættu var tilkynnt að utanríkisráðherra væri í því hlutverki að fara með bréf og væri um það bil eða búinn að afhenda það formanni ráðherraráðs ESB, þetta illa orðaða bréf sem enginn skilur. Hæstv. ráðherra hefur gefið út fjórar útgáfur um hvað standi í bréfinu. Þeir hjá Evrópusambandinu skilja hvorki upp né niður í því. Utanríkisráðherra fer í rifrildi og gerir lítið úr blaðafulltrúa Evrópusambandsins sem fjallaði um málið. Þetta var nánast eins og pósturinn Páll væri á ferðinni með eitthvert bréf sem hann var beðinn um að athuga en vissi ekkert hvað væri í því. Svo kemur víst þar á eftir kötturinn Njáll.

Það sem fæst út úr þessu er svo sem ágætt. Framsókn er að takast það sem okkur hinum hefur ekki tekist nógu vel, þ.e. að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn í herðar niður. Og hafi Framsóknarflokkurinn kærar þakkir fyrir það, alveg sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, sem virðist ekki vita sjálfur hvað stendur í bréfinu.

Þá eru það svikaráðin. Hverju lofuðu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar? Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ítrekaði það í Hörpu að flokkurinn vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður. Gengið á hann, jú, mjög opinn varðandi dagsetningar og flokkurinn hefði alltaf gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla færi fram. Og þegar fundarstjóri gekk á hann ítrekað og spurður um hvort atkvæðagreiðsla færi fram þá svaraði hann á sinn alkunna hátt: Það hlýtur að vera. Og salurinn hló.

Bjarni Benediktsson og oddvitar Sjálfstæðisflokksins, allir, fóru um fyrir kosningar með skrifaðan stíl úr höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins um hverju oddvitarnir ættu að svara varðandi ESB til að freista þess að reyna að halda því sem eftir væri af Sjálfstæðisflokknum saman fram yfir kosningar og þeir aðilar í Sjálfstæðisflokknum sem aðhylltust aðildarviðræður gætu haldið áfram að kjósa flokkinn. Svik og ekkert annað en svik.

Steininn tekur svo úr þegar þeir forustumenn fara svo að tala um málið eins og það er í dag. Má ég minna á, virðulegi forseti, að hæstv. utanríkisráðherra, rétt eftir að hann tók við, hélt að hann gæti gert þetta bara einn eins og að smella saman fingrum, sisvona, og segja: Við erum hættir aðildarviðræðunum og þetta er búið. Kallað var eftir lögfræðiálitum frá m.a. yfirlögfræðingi Alþingis og fleirum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki hægt. Og þess vegna kom hæstv. utanríkisráðherra hér með illa orðaða tillögu og lenti í þeim hrakförum sem hann lenti í með tillöguna á síðastliðnum vetri.

Virðulegi forseti. Það hafa allir áhuga á því að auka virðingu Alþingis. En ég verð að segja eins og er að ef einhverjir eru núna að fótumtroða Alþingi, þingræðið, þá eru það núverandi ríkisstjórnarflokkar. Ég ætla hins vegar ekki að taka alla þingmenn í þann hóp vegna þess að ég held að ekki séu allir á þeirri línu.

Virðulegi forseti. Hvernig í ósköpunum stendur á því að formaður Sjálfstæðisflokksins segir: Hvers vegna ætti þessi ríkisstjórn að hafa ríkar skyldur að leita til þingsins? Hæstv. forseti, hvílíkir einræðistilburðir, samanber „meiri hlutinn ræður“ sem tónað var héðan úr ræðustóli í gær.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hann hafi verið í viðræðum við Evrópusambandið, eða fulltrúa erlendra ríkja, fram hjá þinginu og ræði það frekar þar hvernig eigi að reyna að brugga þessi launráð sem þeir komast ekki með í gegnum þingið, þ.e. þingsályktun um hugsanleg slit, heldur hvernig við getum gert þetta einhvern veginn bakdyramegin og komið þessu fyrir kattarnef sem þeir ekki vilja. Það er mjög alvarlegt mál, virðulegi forseti, að ráðherrar sniðgangi Alþingi sem hefur samþykkt þessa tillögu og fer með þetta vald hér sem við erum öll sammála um að er, og menn taki frekar upp viðræður við ESB, eða erlend ríki eða fulltrúa þeirra, um hvernig skuli landa þessu máli. Ráðabrugg gegn þinginu sem þessir menn hafa stundað er mjög alvarlegt mál. Og ef maður hugsar til þess hvernig þeir töluðu hér á síðasta kjörtímabili um ýmis mál liggur við að manni verði óglatt þegar maður sér hvernig þeir fara með þetta eftir að sjá þá vera komna til valda.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Hið klúðurslega orðaða bréf og margvíslegar yfirlýsingar, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra um hvað standi í bréfinu. Ein skýringin var á fimmtudag, ein á föstudag, ein á laugardag og svo hélt þetta áfram alla helgina. Sagt hefur verið og rætt um að þetta væru ekki slit á viðræðum. Það gerði hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar. Það gerði hæstv. forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, á eftirminnilegan hátt, sem tekur þátt í því að verja þingræðið, tekur þátt í að verja það sem kom út úr lögfræðiálitum og rætt var síðast sem ríkisstjórnin staðfestir með sinni þingsályktunartillögu, þ.e. slitatillögunni sem hann kom ekki í gegnum þingið, að það er ekki hægt að ógilda þá þingsályktunartillögu, aðildarumsókn, nema með nýrri ályktun frá Alþingi. Og það er þess vegna, virðulegi forseti, sem aðilar úti í Brussel, sem hæstv. ráðherra ræddi við, utanríkisráðherra Lettlands, á blaðamannafundi í dag þar sem hann skýrði okkur frá því að í ráðherraráðinu hefðu bæði bréfin verið rædd, bæði þetta óljósa bréf hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, svo og bréf fjögurra formanna stjórnarandstöðuflokkanna sem sendu bréf og útskýringar á stöðu mála á Alþingi.

Það er engin furða að þessi ágæti maður, utanríkisráðherra Lettlands, geti ekki á blaðamannafundi útskýrt hvað Íslendingar eigi við. Hann getur ekki lesið það út úr bréfinu, þar er bara almennt orðalag sem sennilega á að vera til heimabrúks fyrir fulltrúa í Heimssýn, og svo bréf formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem hæstv. utanríkisráðherra vogaði sér að kalla valdarán, tilraun til valdaráns, það að fulltrúar minnihlutaflokkanna, fjögurra flokka á Alþingi, sendi ráðherraráðinu bréf eftir þetta dæmalausa bréf ráðherrans til útskýringar á sjónarmiðum þeirra og stöðunni á Alþingi. (Utanrrh.: … blekkingar, ekki útskýringar. )

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra heldur áfram, segir að þetta séu blekkingar en ekki útskýringar. Já, það heldur þá áfram að hæstv. ráðherra telur að það séu blekkingar þegar menn vilja verja heiður Alþingis, sem hefur tekið ályktun og samþykkt hana með meiri hluta, fulltrúum úr öllum flokkum, þar á meðal þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins. (Utanrrh.: Menn geta verið á Alþingi án blekkinga, þú veist það.) Það er nefnilega þannig að þessi frammíköll hæstv. ráðherra eru mjög táknræn um það hvernig hann telur sig eiga að fara með valdið sem meiri hluti Alþingis hefur falið honum. (Utanrrh.: Nei, nei.) Og það er stórhættulegt mál þegar svona menn hafa völd, það er stórhættulegt.

Virðulegi forseti. Á þeirri mínútu sem ég á eftir vil ég segja að í viðtölum í dag er haft eftir hæstv. ráðherra: Skylda ríkisstjórnarinnar er að fylgja eftir stefnumálum sem meiri hlutinn kaus. Hvernig í ósköpunum á að draga þá ályktun að allur sá hópur sem illu heilli kaus þessa flokka í síðustu kosningum hafi eingöngu verið að kjósa um stefnu þeirra í ESB? Ætli einhverjir hafi ekki verið að kjósa þá út af svakalegum loforðum um skuldaleiðréttingu og ýmislegt annað sem líka hefur verið svikið? (Utanrrh.: Ekki kusu þeir Samfylkinguna.)

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. utanríkisráðherra segir svo hér að utanríkismál séu á forræði framkvæmdarvaldsins en ekki löggjafans og því geti Alþingi ekki gripið inn í meðferð utanríkismála, þá verður mér heitt í hamsi, virðulegi forseti, og mig langar að segja nokkur orð í því sambandi en ég kýs að gera það ekki að þessu sinni, en það er svakalegt að hlusta á þetta.

Virðulegi forseti. Hvað gera menn hjá nágrannaþjóðunum? Nú berast fréttir um að danska ríkisstjórnin, sem er stýrt af jafnaðarmönnum, hafi samið við stjórnarandstöðuflokkana um þjóðaratkvæðagreiðslu um (Forseti hringir.) tiltekið mál sem fer fram eigi síðar en á fyrsta ársfjórðungi á næsta ári. Það er bragur á því sem Danir gera en óbragur á því sem núverandi (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn er að fara, sem er ekkert (Forseti hringir.) annað en svik við þjóðina og aðför að þingræði í landinu.