144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann spyr: Á hvaða leið erum við og á hvaða leið eigum við að vera? Að mínu mati er það ósköp skýrt hvað varðar þetta atriði eins og svo mörg önnur sem við erum að vinna að í þessu þjóðfélagi eftir hrunið mikla. Við eigum að vera í viðræðum við Evrópusambandið, fulltrúar allra flokka eins og samninganefndin var, við að reyna að fá sem bestan samning, ljúka viðræðum, koma með samninginn heim, veita fé frá ríkinu, frá Alþingi, til þeirra sem vilja samþykkja samning og þeirra sem eru á móti jafnt og hafa sem besta kynningu fyrir almenning í landinu þannig að fólk geti myndað sér sína skoðun á samningnum og því sem hann býður upp á. Og síðan er haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem fólk segir já eða nei.

Skoðanakannanir sýna að í dag er meiri hluti fyrir því að ganga ekki í Evrópusambandið. Segjum að það yrði niðurstaðan. Þá væri það bara ágætt, þá standa allir stjórnmálaflokkar á Íslandi frammi fyrir því að búa sér til nýja stefnu, efnahagsstefnu, peningamálastefnu og allar þessar stefnur sem þarf að framfylgja til að búa til umhverfi fyrir rekstur Íslands án þess að við séum að ganga í Evrópusambandið, án þess að við séum hugsanlega að taka upp evru.

Ég gat um það, virðulegi forseti, hér áðan að fréttir berast nú af því að Danir munu brátt kjósa um hvaða breytingar skuli gerðar á undanþágum ESB-aðildar landsins á sviði dóms- og innanríkismála. Ég sagði þá frá því að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu náð samkomulagi um málið eftir viðræður við stjórnarandstöðuflokkana.

Virðulegi forseti. Af hverju getum við á Íslandi ekki unnið eins og Danir eru að gera þarna? Af hverju geta forustumenn ríkisstjórnarflokkanna ekki komið ofan af sínum háa stalli sem þeir vilja vera á, komið aðeins niður til okkar hinna, efnt til viðræðna fulltrúa allra flokka, formanna allra flokka, við að reyna að ná niðurstöðu um hvort við gætum ekki sameinast um leiðir í þessu? Svo skulum við takast á (Forseti hringir.) þegar kemur að kosningunum sjálfum um hvort fólk segir já eða nei.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta er svar mitt til hv. þingmanns, unga þingmannsins, (Forseti hringir.)sem spyr á hvaða leið við eigum að vera.