144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Auðvitað mundi maður alltaf vilja vera á þeirri leið sem er í takt við þá stefnu í hverjum málaflokki sem maður vill. En við verðum að líta til þess einnig að eftir nær algjört efnahagshrun hefur ekki tekist að klára málið, að klára þessar viðræður, fyrst og fremst vegna stjórnarskiptanna. Í öðru lagi hefur ekki tekist, til lengri tíma í það minnsta, að afla stuðnings við inngöngu í Evrópusambandið á meðal þjóðarinnar, eðlilega vegna þess að samningaviðræðum er ekki lokið og ekki liggur fyrir, þrátt fyrir allt sem hér er sagt, hvað yrði í endanlegum samningi.

Ég legg það til umræðunnar að það kerfi sem við búum við núna sé ekki nógu gott til að takast á við þetta verkefni og að við þurfum að íhuga í grundvallaratriðum hvernig við viljum að lýðræðiskerfið virki. Það gleður mig að hv. þingmaður skuli nefna Danmörku í þessu sambandi. Hv. þingmaður spyr: Hvernig geta Danir tekist á við þetta? Danir eru með afskaplega líkt fyrirkomulag og er hérlendis enda er íslenska lýðveldið í raun módel af konungsríkinu Danmörku, sem er áhugavert umræðuefni út af fyrir sig. En Danir eru með svolítið sérstaka reglu sem mér þykir góð, ekki til að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum í sjálfu sér heldur til að bæta þingstörfin og það er að þriðjungur þings getur þar knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Ég legg það til umræðunnar, virðulegi forseti, að það sé ein af ástæðunum fyrir því að í Danmörku tekst fólki að tala um þetta mál eins og það sé fullorðið.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.