144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefnir hér ákvæði sem ég var búinn að ákveða að nefna líka í síðara andsvari mínu, þ.e. ákvæði í stjórnarskrá þar sem 1/3 þingmanna getur vísað máli til þjóðarinnar. Vonandi verður það þannig, þegar það ákvæði verður komið inn, að helst þurfi aldrei að nota það, en um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerð gegn stjórnvaldi eins og því sem nú situr og hegðar sér eins og við ræðum hér og er mikið deilumál.

Hæstv. ríkisstjórn hefði aldrei vogað sér að gera þetta ef umrætt ákvæði væri í stjórnarskrá. Ég hef nefnt, og það hefur verið gert í mínum þingflokki, að þetta ákvæði þurfi að vera í stjórnarskrá og vonandi verður það gert í þeirri endurskoðun sem er í gangi á þessu kjörtímabili. Í staðinn má ræða það sem ég tel vera hinn mesta ljóð á störfum Alþingis, hinn ótakmarkaða og langa ræðutíma, að það komi í staðinn. Það þarf líka að ljúka því verki sem hófst. Menn ætluðu sér kannski of mikið í byrjun, þ.e. heildarendurskoðun á stjórnarskránni, en sú vinna verður að koma fram þar sem réttur minni hluta kemur inn í, eins og við ræddum um áðan.

Það má segja að tillaga minnihlutaflokkanna hér á Alþingi, sem vonandi verður lögð fram á morgun, um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram viðræðum, er tillaga þessara flokka til sátta. Þetta er sáttarhönd til ríkisstjórnarflokkanna. Við höfum stuðning þeirra miðað við það sem þeir sögðu fyrir kosningar en við höfum ekki stuðning út frá því sem þeir segja og framkvæma eftir að þeir eru komnir til valda, vegna þess að menn skrökvuðu sig til valda.

Það verður að segja það hér í lokin að ég er mjög ánægður með það sem forseti Alþingis hefur sagt. Ég styð það heilshugar og sagði í gær sem 1. varaforseti, að ég er sammála forseta um að ef menn ætla að slíta viðræðunum verður það ekki gert öðruvísi (Forseti hringir.) en með nýrri þingsályktunartillögu sem yrði samþykkt á Alþingi. (Forseti hringir.) Ég tek undir það sjónarmið.