144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég skil ekkert í þessari ríkisstjórn þannig að ég get ekki svarað því hvernig hún hugsar. Það er eitt sem við höfum svo sem ekkert komist í að ræða í dag sem er: Af hverju erum við að ræða þetta mál, af hverju er Evrópusambandið stórmál? Það varðar í mínum huga bara lífskjör á Íslandi til framtíðar, hvar við sjáum okkur eftir tíu ár eða tuttugu ár. Höldum við í við aðrar þjóðir með örmyntina krónuna og þar fram eftir götunum? Við höfum ekkert náð að ræða það.

Ég hef tekið eftir því hvað stjórnvöldum verður tíðrætt um fyrra kjörtímabil og fyrri ríkisstjórn. Það fer óneitanlega mjög mikið í taugarnar á mér þar sem ég og langflestir Íslendingar voru ekki á þingi á síðasta kjörtímabili og höfum ekkert með það mál að gera. Mér finnst það bara alls ekki koma málinu við hvað Jón Bjarnason gerði eða gerði ekki. Staðan er eins og hún er í dag og við hljótum bara að skoða framhaldið út frá henni. Það er nú orðið að einhverri möntru: Hefði átti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um að fara í aðildarviðræðurnar? Það hefur hvergi verið gert í einu einasta landi enda er talað um að það gæti veikt samningsstöðuna. Þar fyrir utan, ef stjórnvöld eru kosin út á öll sín mál, eða flokkar eins og haldið er fram núna, hlýtur Samfylkingin að hafa verið kosin út á það að ganga í Evrópusambandið árið 2009. Það var mjög skýr niðurstaða í þeim kosningum og helsta baráttumál Samfylkingarinnar hefur verið að ganga í Evrópusambandið. Ef það var ekki skýrt umboð og … (BÁ: En VG?) Ja, Samfylkingin vann kosningarnar þá og þetta var þingsályktun sem samþykkt var í þingsal. Menn geta alveg haldið því fram að ekki hafi allir ýtt sjálfviljugir á græna takkann, en það hlýtur þá að eiga við í öllum málum ef menn ætla að fara út í þær umræður, skuldaniðurfellinguna og hvað veit ég. Það er náttúrlega ekki boðlegt að tala með þeim hætti.