144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum lýst því þegar fólk spyr mig hvernig sé að vera á þingi, ég hef kannski sagt þetta áður í ræðustól. Ég hef sagt að mér fyndist svolítið eins og ég væri komin í fermingarveislu þar sem ég þekkti ekki alla ættina mjög vel en ég fyndi að ýmislegt hefði gengið á, það hafi verið skilnaður og ýmis erfið mál. Sú tilfinning vex bara. Þetta voru bara þannig mál að einhverjir hefðu þurft á sálfræðimeðferð að halda til að komast í gegnum þau til að geta byrjað upp á nýtt. Þetta háir okkur virkilega. Mér finnst þetta pínu — ég veit ekki hvort ég á að segja sjúkt, en ég veit að þetta var erfitt kjörtímabil og það voru mikil átök. Auðvitað reynir maður að hafa skilning á því, en við verðum að fara að horfa fram á veginn. Það er ekki alltaf hægt að segja: Já, en þið gerðuð … Mér finnst þetta stundum svona „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn-umræða“. Það að hafa ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu einhvern tímann, ætlum við þá ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu núna jafnvel þótt þjóðin vilji það? Þetta snýst ekki bara um okkur, þá 63 þingmenn sem hér eru núna og þá 63 sem voru hér á síðasta kjörtímabili.