144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkurs konar fréttavakt sem við erum á hérna vegna þess að túlkanir berast hér ótt og títt inn á borð þingmanna.

Nýjustu vendingar í þessu máli eru þær í fyrsta lagi að utanríkisráðherra og forsætisráðherra segja báðir að bréfið sé gert í samráði við Evrópusambandið. Gott og vel. Við höfum ýmsar skoðanir á því og þær skoðanir hafa verið viðraðar hér. Gert í samráði við Evrópusambandið. Síðan koma fram í fréttum í kvöld upplýsingar frá því hinu sama Evrópusambandi sem skilur ekki bréfið sem var gert í samráði við Evrópusambandið. Það segir bara núna: Ísland þarf að finna út úr sínum málum og ákveða hvað það vill o.s.frv., vegna þess að Evrópusambandið telur það ekki liggja fyrir eftir að bréfið kom sem var gert einmitt í samráði við Evrópusambandið.

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega eins og einhver vitleysa, staðan sem við stöndum frammi fyrir. Mér finnst eiginlega leitin sem við stöndum frammi fyrir vera leitin að því hver staðan er í raun og veru núna og hvað er einfaldast að gera til að við komumst á þann stað a.m.k. að þokunni létti. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að besta og eðlilegasta leiðin til þess að við vitum sameiginlega þing, þjóð, framkvæmdarvaldið og Evrópusambandið hvar við erum stödd, sé að þetta bréf verði dregið til baka?