144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það, auðvitað á draga bréfið til baka, það er mjög góð hugmynd. En mér hefur fundist það vera lenska hérna frá því að þessi stjórn tók við og hefur verið að brasast í þessum Evrópusambandsmálum að kenna Evrópusambandinu um. Við þurfum að gera þetta því að Evrópusambandið kallar eftir upplýsingum. Svo er sagt núna: Við erum búin að vera í samráði við Evrópusambandið út af þessu bréfi. Ég bíð bara eftir að þeir segi að Evrópusambandið hafi samið bréfið. Annars væri svolítið gaman að vita hver samdi bréfið. Það þarf ekki að segja nafnið á embættismanninum. Er það samið í utanríkisráðuneytinu? Það eru einhverjar sögusagnir um að forsetinn hafi samið það, það sé nógu óljóst til þess. Er bréfið samið í utanríkisráðuneytinu? (Utanrrh.: Já, já.)

Hæstv. utanríkisráðherra ber náttúrlega ábyrgð á bréfinu. Þetta bréf er bara ekki nógu gott nema samsæriskenningin mín sé rétt, sem misheppnaðist reyndar aðeins, að það ætti að hafa bréfið nógu óljóst til þess að Evrópusambandið mundi einhvern veginn taka því sem viðræðuslitum en eftir sem áður væri hægt að segja við þjóðina: Nei, sjáið þið, það stendur í bréfinu, við segjum ekkert slit, þeir hafa bara ákveðið það. Ég er kannski orðin brjáluð, en maður skilur hvorki upp né niður, maður er að reyna einhvern veginn að ná utan um málið og það talar einhvern veginn enginn skýrt og það er bara virkilega óþægilegt, svolítið eins og við séum að tala hvert sitt tungumálið. En þetta er furðuleg staða.

Eins og þetta fór allt saman þá virðist Evrópusambandið meta það þannig að við séum enn þá með okkar umsókn inni, enginn skaði skeður, þannig að við getum bara haldið áfram og hæstv. utanríkisráðherra getur farið að einbeita sér að einhverju öðru.