144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er ekki laust við að maður geti tekið undir að hroki einkenni þessa ríkisstjórn en þegar það fer saman, hroki og yfirlæti annars vegar og svo hins vegar alveg ótrúlegur klaufaskapur og hallærisgangan í hverju málinu á fætur öðru, er svo niðurlægjandi fyrir Ísland að horfa upp á þetta. Við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að hafa fylgst með pólitík um nokkurt skeið og ég er enn þá að reyna að skilja hvað gerðist eiginlega á þessum 2–3 vikum frá því að hæstv. forsætisráðherra talaði enn þá um að þingsályktunin væri að koma og þangað til núna á dögunum. Ég velti því fyrir mér, af því að maður er að reyna að setja sig í spor þeirra sem eru bæði haldnir ákveðinni valdasýn og yfirlæti og eru svo líka pínulítið klaufalegir, hvort það sé þannig að þegar Framsóknarflokkurinn berst fyrir lífi sínu, vegna þess að hann er að missa flugið og er kominn á sögulegar slóðir í fylgi sínu og hefur ekkert, er í raun og veru búinn að spila út kosningaloforðinu stóra, ermarnar eru tómar, það er ekkert eftir, hugsi hann með sér: Heyrðu, þetta er málið. Tökum þetta svona. Og þá hugsi Sjálfstæðisflokkurinn: Það er ekki alveg einfalt fyrir okkur að fara í gegn með þetta Evrópusambandsmál vegna þess að það er ofboðslega reitt fólk sem togar hvert í sína áttina. Annars vegar erum við að tala um Morgunblaðið og reiðukallafélag Sjálfstæðisflokksins og hins vegar erum við að tala um atvinnulífskantinn. Þá segir Sjálfstæðisflokkurinn: Ég veit, þá sleppum við því að fara með þetta í gegnum þingið, vegna þess að þá þarf hvorki reiðukallafólkið né atvinnulífsfólkið að takast á við atkvæðagreiðslu heldur segir bara: Heyrðu, utanríkisráðherrann sendir bara bréf. Var þetta ekki svona einhvern veginn?