144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski svolítið óþægilegt fyrir stjórnarflokkana að nú verður kjörtímabilið hálfnað eftir nokkrar vikur og þá er ekki lengur hægt að halda því fram að allt sé fyrri ríkisstjórn að kenna. Er þá ekki komið að því að fólk verði að átta sig á því að það er í raun og veru í meiri hluta? Ég held að það sé helsti áfanginn sem fólk innan ríkisstjórnarflokkanna þarf að horfast í augu við, að það gengur ekki lengur að ganga hér svona digurbarkalega fram hjá ræðustólnum og æpa „Icesave“, alveg sama hvað er til umræðu.

En það verður ekki hjá því litið, af því að við erum að skiptast á skoðunum um raunverulegar pólitískar ástæður þeirrar stöðu sem upp er komin, að það er ekki aðeins þannig að ekki sé samstaða um málið í Sjálfstæðisflokknum, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, heldur leikur Sjálfstæðisflokkurinn á reiðiskjálfi. Hann er á bjargbrúninni að klofna með meira afgerandi hætti en hefur átt sér stað mjög lengi og það undir stjórn formanns sem þarf að horfast í augu við það í fyrsta lagi að sitja ekki við borðsendann í Stjórnarráðinu, sem er hið sögulega sæti Sjálfstæðisflokksins, og í öðru lagi að flokkurinn er að festast í sessi sem fjórðungsflokkur í fylgi. Sá flokkur sem hefur talið sig eiga réttmæta kröfu á 30–40% fylgi hér um áratugaskeið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér að eina leiðin til að núllstilla þennan vandræðagang sé að draga þetta bréf til baka og spyrja þjóðina um næstu skref.