144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra Bretlands á sínum tíma, Winston Churchill, sagði einhvern tíma að lýðræðið væri versta hugsanlega stjórnarform sem völ væri á fyrir utan öll hin sem hefðu verið reynd. Nú finnst mér svolítið eins og búið sé að reyna að hafa fulltrúalýðræði þar sem fulltrúarnir lofa einhverju, komast síðan til valda og eru við völd í fjögur ár sama hvað tautar og raular, sama hversu mikið þeir svíkja, sama hversu stór hluti þjóðarinnar vill fá að ráða einhverju upp á eigin spýtur o.s.frv. En svo þegar við lítum á hagsmunaaðilana, sem vissulega virðast toga í einhverja spotta hér og þar, sér maður þá alveg skýrt í til dæmis málinu um virkjanirnar. Maður veit að þar eru stórir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Það sem vekur mér hins vegar algera furðu er hvaða hagsmunir sannfæra hæstv. utanríkisráðherra um að þetta sé góð hugmynd, þetta sé góð leið. Maður hefði haldið að sérhagsmunahópar hefðu alla vega getað fundið einhverja útfærslu sem væri ekki jafn stórkostlegt klúður, kannski segir það meira um hæstv. utanríkisráðherra heldur en hagsmunina. Það verður hver og einn að dæma fyrir sig.

Mér þykir alla vega ljóst að þessi tiltekna útfærsla af lýðræðinu okkar, sem við megum þó ekki gleyma að er mikilvægt að hafa og er umfram það sem margar aðrar þjóðir hafa, virkar ekki undir þessum kringumstæðum. Ef Alþingi virkar ekki erum við á stað í Íslandssögunni sem við höfum ekki horfst í augu við síðan talsvert löngu fyrir stofnun lýðveldisins. Erum við ekki komin á einhvers konar tímamót í því hvernig við eigum að hugsa um íslenskt lýðræði? Þurfum við ekki svolítið að fara að hugsa út fyrir kassann varðandi það hvernig við bregðumst við gagnvart ríkisstjórninni?