144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það líður nú að lokum þessarar umræðu okkar í dag og henni verður vísast fram haldið á þingfundi á morgun. Ég vil áður en lengra er haldið kalla eftir því að forseti afli okkur þeirra gagna sem nauðsynlegt er að hafa til að halda umræðunni áfram, þ.e. þau skriflegu gögn sem hæstv. utanríkisráðherra getur reitt fram því til sönnunar að Evrópusambandið hafi kallað eftir skýringum á afstöðu Íslands, eins og komið hefur fram í máli hans og annarra forustumanna í ríkisstjórninni, og þó sérstaklega öll gögn um samráð ráðherrans við erlenda embættismenn, þ.e. Evrópusambandsins, um það með hvaða hætti megi sniðganga Alþingi. Ég held að við þurfum að fá afrit af tölvupóstum, minnisblöð af fundum og annað slíkt, bréf eða hvað eina sem tiltækt er sem sýnir okkur þetta samráð og í hverju það fólst, vegna þess að það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir Alþingi að fara vandlega yfir það í hvers konar biksi utanríkisráðherra hefur eiginlega staðið undanfarnar vikur frá því hann skipti síðast um skoðun í því meginmáli sem honum var falið á þessu kjörtímabili en það er utanríkisstefna Íslands.

Sem kunnugt er var hann síðast í byrjun þessa mánaðar þeirrar skoðunar að hann væri að fara að flytja hér á Alþingi þingmál um efnið. Það var að vísu ný afstaða hjá ráðherranum á fyrri hluta þessa árs sem nú hefur breyst í því höfuðverkefni hans og stærsta utanríkismáli Íslands þar sem hann nú er orðinn þeirrar skoðunar að þingmálið sem hann hugðist flytja fyrir nokkrum vikum eigi ekki að flytja og þurfi ekki að flytja. En fyrir jólin var hann hins vegar hvorki á því að ekki ætti að flytja slíkt þingmál, eins og hann er núna, né heldur þeirrar skoðunar að flytja ætti það eindregið, eins og hann var á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015. Nei, því að á síðasta ársfjórðungi ársins 2014 var utanríkisráðherra nefnilega þeirrar skoðunar að hann ætlaði kannski að flytja þingmál um stærsta utanríkismál þjóðarinnar. Þar áður, ja, mér er ekki kunnugt um hvað utanríkisráðherra taldi í þessu höfuðmáli á þriðja ársfjórðungi ársins 2014, en ég veit hins vegar að á öðrum ársfjórðungi 2014 taldi utanríkisráðherra ákaflega mikilvægt að flytja þingmál um þetta meginutanríkismál. En það var hins vegar enn og aftur breyting á afstöðu utanríkisráðherrans í þessu sama máli sem hafði á fjórða ársfjórðungi ársins 2013 verið sú að hann þyrfti ekki að flytja neitt þingmál um efnið. Þannig telst mér til að á innan við tveimur árum hafi hæstv. utanríkisráðherra tekist að skipta fjórum eða fimm sinnum um skoðun á stærsta utanríkismáli þjóðarinnar og hverjar embættisskyldur hans helstar væru í því efni. Ég held að það segi býsna mikið um hvílík lausatök eru á utanríkisráðuneytinu nú um stundir og hversu mikil vangeta þar er í forsvari til að halda á málum og hefur núna komið okkur í þá stöðu að helstu samstarfsríki okkar vita ekki sitt rjúkandi ráð, skilja bara ekkert í því hvað er í gangi á Íslandi og eiga þann kost einan að lýsa því yfir að þau ætli ekkert að skipta sér af þessari vitleysu.

Um hvað snýst þetta, öll þessi endileysa? Einhverju sinni í mörgum og misvísandi yfirlýsingum utanríkisráðherra á síðustu dögum sagði hann að með þessu yrði málinu lokið, og þá væntanlega aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þá verðum við að spyrja, hvernig hófst það mál? Það mál hófst á Alþingi Íslendinga með því að meiri hluti þjóðkjörinna fulltrúa samþykkti stefnumörkun í utanríkismálum Íslands með meiri hluta atkvæða sem síðan hefur verið fylgt. Hvað er ráðherrann að segja þegar hann reynir að binda endi á þann leiðangur án þess að bera það undir þjóðþingið? Hann er náttúrlega í fyrsta lagi að segja að ríkisstjórnin fyrri hefði bara getað tekið þá ákvörðun að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að bera það nokkurn tíma undir þingið. Af sjálfu leiðir, ef ráðherrann þarf ekki að bera það undir þingið að afturkalla umsóknina þá getur varla hafa þurft að bera það undir þingið að sækja um til að byrja með. Hvernig verja menn þetta? Menn verja það þannig með því að segja: Ja, menn geta alltaf lýst vantrausti á ríkisstjórnina. Og þá kann einhver að spyrja: Já, er það ekki bara lýðræðisleg nálgun? Nei, virðulegi forseti, það er af og frá. Það eru bolabrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins til þess gerð að stilla þingmönnum upp við vegg, vegna þess að þó að maður sé ósáttur við eina ákvörðun sem framkvæmdarvaldið tekur og hefði aldrei ljáð henni stuðning sinn í þinginu og fyrir þeirri ákvörðun sé ekki meirihlutavilji hér í salnum þá þarf það ekki endilega að þýða að maður sé fyrir vikið tilbúinn til að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og steypa henni og þar með öllum málum hennar. Einmitt þess vegna er það sem ráðherrann hefur verið í þessum vandræðum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki komið málinu í gegn í sínum ranni og því gripið til þess óyndisúrræðis að stilla þingmönnum sínum upp við vegg frammi fyrir orðnum hlut og neyða þá til að eiga um það eitt að velja, ekki að standa gegn þessari vondu og vitlausu ákvörðun heldur að ef þeir vilji beita sér gegn henni þá eigi þeir engan annan kost en að steypa ríkisstjórninni með vantrausti. Þetta eru hin ólýðræðislegu vinnubrögð. Það er einfaldlega þannig að frá því að embætti utanríkisráðherra var stofnað á Íslandi árið 1940 veit ég ekki um neinn — ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef hann getur nefnt mér einn — ég veit ekki um neinn utanríkisráðherra sem hefur farið gegn þingsályktun Alþingis fyrr en á árinu 2015, það gerir Gunnar Bragi Sveinsson og það segir mikla sögu um Gunnar Braga Sveinsson og hún er ekki fögur. (Gripið fram í.)

Þegar hann í upphafi þessa kjörtímabils ætlaði að reyna að fara fram hjá Alþingi í stað þess að minna á þessa íslensku lýðræðishefð reyndu einhverjir á vegum ráðherrans, ef maður á að leggja trúnað á orð fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, þá trúlega utan Stjórnarráðsins, að teygja sig í það að vísa til dansks fræðimanns sem hefur orðið kunnur þar í landi fyrir að halda fram því sjónarmiði að ein ríkisstjórn sé ekkert bundin af þingsályktunum sem samþykktar hafa verið á fyrri kjörtímabilum. Það er, held ég, býsna erfitt að segja að það sé ríkjandi viðhorf meðal danskra fræðimanna, og raunar ástæða til að taka fram að ég þekki heldur engin dæmi þess að aðrir ráðherrar hafi farið gegn samþykktum Alþingis með þessum hætti nema utanríkisráðherra. En jafnvel í Danmörku þar sem þessi hefð um þingsályktanir er ekki eins sterk og hér þá eru engin dæmi um það. Það eru engin dæmi um það í utanríkissögu Dana að ríkisstjórn hafi farið gegn ályktun samþykktri af danska þinginu, þó að hún hafi verið samþykkt á kjörtímabilinu á undan eða kjörtímabilinu þar á undan eða kjörtímabilinu þar á undan eða þar, þar á undan. Lýðræðishefð okkar er einfaldlega sú að Alþingi samþykkir lög og þingsályktanir sem ríkisstjórnir starfa eftir og vilji ríkisstjórnir breyta þeim samþykktum þá flytja ríkisstjórnir frumvörp eða þingsályktanir þar um og fá til þess stuðning þingmanna en framkvæma ekki bara eitthvað í heimildarleysi frá þinginu og stilla stjórnarþingmönnum upp gagnvart þeim eina kosti að steypa ríkisstjórninni.