144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er varla nema eitt sem getur búið því að baki. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa væntanlega metið það svo að í hópi samþingmanna þeirra og samflokksmanna væru uppi verulegar efasemdir um að ríkisstjórnin hefði uppi skynsamlegar ráðagerðir. Ég held að það sé út af fyrir sig ekki annað en það sem utanríkisráðherra kallar „common sense“ og er á íslensku kallað heilbrigð skynsemi, að það hafi býsna margir þingmenn, bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, haft gleggri sýn á þetta en ráðherrarnir virðast hafa haft, þ.e. að það væri óráð að fara fram með þessum hætti, það væri óráð að efna til þeirra illdeilna sem því mundu fylgja, vekja vonbrigði hjá fólki sem gefin voru afdráttarlaus loforð, bæði af hálfu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, í aðdraganda kosninga og kannski ekki síst í þeirri ófyrirleitni sem felst í því ekki bara að vilja ráða eða svíkja loforð — látum vera þó að menn taki þá ákvörðun um sinn eigin sóma að efna ekki fyrirheit á sínu eigin kjörtímabili, en sú ófyrirleitni að ætla að skemma möguleika framtíðarinnar með þessum aðgerðum, ég held að hún hlyti að hafa mætt mikilli andstöðu bæði í hópi óbreyttra þingmanna Framsóknarflokks og þó ekki síður Sjálfstæðisflokks.