144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það frá hjartarótum. Þetta er ekki bara kúgun gagnvart hv. þingmönnum eins og Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem er efnislega fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, eða því að ljúka samningum, heldur einmitt öllum þeim sem er í nöp við þessa aðferð því að það er það sem misbýður, það er aðferðin við þetta, sniðganga Alþingis.

Ég sagði í fyrra andsvari mínu til hv. þingmanns að vantrauststillaga væri róttækasta vopnið sem við höfum. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra og fleiri þingmenn stjórnarmeirihlutans kvartað mikið undan því að við höfum dirfst að tjá okkur of mikið um Evrópusambandsmálið sem var lagt fram hér á seinasta ári, telja það verkfæri ofbeldi mikið. Því velti ég fyrir mér: Er þörf á að hýða þessa ríkisstjórn pínu pons og sýna að til er róttækara verkfæri hér á bæ en vantrauststillaga, róttækari en málþóf? Engin leið sem ég ætla að nefna hér og nú en bendi á að ef reglan á að vera þannig að menn hér á bæ, sem eru hæstv. ráðherrar, megi bara ganga eins langt og þeim sýnist þar til komið er að vantrausti, hvað er hæstv. utanríkisráðherra þá að segja við okkur? Eigum við að ganga eins langt og við megum samkvæmt þingsköpum þar til hæstv. utanríkisráðherra heimtar nýjar kosningar, eða hvað? Ég efast um að hann vilji það.